Rannsókn mín á mismunandi ferðamátum
Fór nefnilega til Upper Darby - úthverfi Philadelphiu á Sufjan Stevens tónleika í gær. Átti upphaflega að fara með Völlu - en hún forfallaðist og minnstu munaði að ég hætti við ferðina. Endaði með því að fara með Nikkitu vinkonu minni sem á heima ekkert svo langt frá tónleikastaðnum.
Ég tók því Amtrak til Philadelphiu til að hitta á Völlu, sem er í skóla þar. Hún nefnilega hafði keypt miðana og e-n veginn varð ég að ná í þá. Síðan tók ég SEPTA lestina til Doylestown Pa, þar sem Nikkita á heima. Þar kom hún og sótti mig á grænu bjöllunni sinni - þetta var í fyrsta sinn sem ég sest inn í bjöllu - voða flott. Við fórum á tónleikana - hittum meira segja fullt af krökkum sem voru með henni í menntaskóla (high school). Gisti svo í Doylestown og tók rútuna þaðan beint til NYC í morgun.
Tónleikarnir voru frábærir, sorrý Valla, bara verð að segja þetta. Það voru fimmtán manns á sviðinu, allir með fiðrildavængi og grímur nema Sufjan Stevens, hann var með arnarvængi. Hann tók mörg lög af The Seven Swans og Illinois. Ég held það hafi tekið salinn 5 mínútur að klappa hann upp eftir tónleikana. Held það sé vegna þess að þau þurftu að koma sér úr vængjunum.
Annars eru Hanna og Ingi að koma í heimsókn í dag. Þau verða hérna næstu 10 dagana eða svo. Það verður því yfirfullt að gera og því ábyggilega lítið um blogg.