Ragna í New York

29. september 2006

Rannsókn mín á mismunandi ferðamátum

Síðasta sólarhringinn er ég búin að prófa margs konar ferðamáta. Subway, Amtrak (fínni lest), SEPTA (ekki eins fín lest), keyra um í grænni bjöllu og svo rútu. Lagði af stað rétt fyrir 3 í gær og kom til baka um 12 leytið á hádegi í dag.

Fór nefnilega til Upper Darby - úthverfi Philadelphiu á Sufjan Stevens tónleika í gær. Átti upphaflega að fara með Völlu - en hún forfallaðist og minnstu munaði að ég hætti við ferðina. Endaði með því að fara með Nikkitu vinkonu minni sem á heima ekkert svo langt frá tónleikastaðnum.

Ég tók því Amtrak til Philadelphiu til að hitta á Völlu, sem er í skóla þar. Hún nefnilega hafði keypt miðana og e-n veginn varð ég að ná í þá. Síðan tók ég SEPTA lestina til Doylestown Pa, þar sem Nikkita á heima. Þar kom hún og sótti mig á grænu bjöllunni sinni - þetta var í fyrsta sinn sem ég sest inn í bjöllu - voða flott. Við fórum á tónleikana - hittum meira segja fullt af krökkum sem voru með henni í menntaskóla (high school). Gisti svo í Doylestown og tók rútuna þaðan beint til NYC í morgun.

Tónleikarnir voru frábærir, sorrý Valla, bara verð að segja þetta. Það voru fimmtán manns á sviðinu, allir með fiðrildavængi og grímur nema Sufjan Stevens, hann var með arnarvængi. Hann tók mörg lög af The Seven Swans og Illinois. Ég held það hafi tekið salinn 5 mínútur að klappa hann upp eftir tónleikana. Held það sé vegna þess að þau þurftu að koma sér úr vængjunum.

Annars eru Hanna og Ingi að koma í heimsókn í dag. Þau verða hérna næstu 10 dagana eða svo. Það verður því yfirfullt að gera og því ábyggilega lítið um blogg.

27. september 2006

Ef maður væri ekki háður kaffinu...

Hvað er málið með mig? Það líður ekki sá mánudagur eða miðvikudagur (dagarnir sem ég er að kenna) að ég helli ekki á mig kaffi. Ekki það að maður hafi ekki hellt á sig kaffi áður en það var aldrei svona reglulega...

Ég setti upp svona grindur í eldhúsið til að hengja upp alls konar hluti. Keypti grindurnar í lok maí en grindurnar voru partur af því sem ég “mátti” ekki setja upp þegar sumarleigandinn kom. Mér var þá vinsamlegast tilkynnt að breyta engu í sameigninni og bent á það að það væri nú best að ræða um þetta við Meha. Grindurnar voru nú samt keyptar eftir samtal við Meha um hvað við gætum gert við eldhúsið...

Það var dálítið mál að setja upp þessar grindur, ég hafði fengið skrúfur í byggingavöruverslun hérna handan við hornið og svo lét gaurinn þar mig fá nagla svo ég gæti búið til gat fyrir skrúfurnar (í staðinn fyrir að bora sko). Voða tæknilegt sko. En já það er eitthvað útvarp/geislaspilari sem hangir á skápunum í eldhúsinu (var í íbúðinni þegar ég flutti) og var það svo mikið fyrir að ég gat ekki búið til gat fyrir skrúfuna. Ég endaði á því að taka það bara niður (fattaði að það voru skrúfur í skápnum fyrir ofan) þetta var samt dáldið mikið basl - þurfti m.a. að ná í stafla af bókum til að halda við útvarpið þegar ég festi það upp aftur. Næst er barra að kaupa eina grind í viðbót svo við getum sett kryddhilluna upp.

Þann 27 september, 2006 18:08, sagði Anonymous Nafnlaus...

Borvélar eru líka vesen, mismunandi borar fyrir mismunandi veggi, ég ætla að reyna að sneiða hjá því að læra muninn :)

 
Þann 28 september, 2006 11:01, sagði Anonymous Nafnlaus...

Ragnhildur: það er svo auðvelt að læra muninn á borunum. ;)
Ég þarf stundum að bora heima hjá mér. Það er ekki skemmtilegt en maður lætur sig hafa það.
Skil ekkert í þessu með kaffið Ragna.

 
Viltu tjá þig?

22. september 2006

Aðdáandi?

Fór út að borða með Margréti í kvöld. Fórum á indverskan stað ekki langt í burtu héðan. Ég hef farið tvisvar áður á þennan stað. Fyrst fyrir rúmu ári síðan þegar ég fór með Helgu og Sigga. Þá hittum við á þjón sem var líka svona rosa hress og endaði á því að gefa okkur te eftir matinn (eða eitthvað sem fylgdi ekki). Í annað skiptið fór ég með Siggu, Harold og krökkunum (hugsa í mars fyrr á þessu ári). Um leið og við komum inn þá kemur sami þjónn, brosandi út að eyrum og vissi strax hver ég var. Þjónustan var voða fín og í miðri máltíð kemur hann með tvo Shirley Temple (óáfengur kokteill) handa krökkunum, í boði hússins. Núna þegar við Margrét komum inn þá er hvergi þjóninn að sjá. Við fáum sæti, svo lít ég upp og hver annar en þjónninn kemur aðsvífandi og getið hvað, hann mundi eftir mér. Eftir að við Margrét höfðum sagt öðrum þjóni að við vildum bara vatn, þá kemur hann og spyr hvort við viljum ekki vín með matnum - endar með því að hann færir okkur sitthvort hvítvínsglasið og já í boði hússins. Núna talaði hann ennþá meira við okkur - spurði mig meðal annars hvað hafi orðið af mér, ég hlyti að hafa farið e-t í burtu því hann hefði ekki séð mig svo lengi. Eitthvað meira í þessum dúr fór fram á milli okkar. Svo þegar við fórum þá heimtaði hann að fá að faðma mig og ég átti að skila kveðju til systur minnar og segja henni frá öllum frábæru gaurunum sem ég hitti í borginni.

Spurningin er þessi: Á ég að vera hrædd - eða á ég að gera eins og Meha segir, fara svona á þriggja vikna fresti og taka vini með mér og notfæra mér fríðindin á staðnum. Við skulum taka það fram að Meha hefur oft farið á sama veitingastað en aldrei hefur henni verið boðið neitt ókeypis þar og þó er hún indversk. Já og vel á minnst, þjónninn er ekki indverskur heldur svona frekar asískur (kannski kóreskur) í útliti. Helga, manstu hvaðan hann sagðist vera?

Þann 23 september, 2006 14:58, sagði Anonymous Nafnlaus...

Man eftir þessum kalli en man ekkert hvaðan hann er. Hann var eiginlega óþægilega "nice" þegar við fórum þarna út að borða og mér heyrist hann ekkert hafa lagast. Ég myndi bara nýta mér þessi fríðindi sem þú færð þarna en vera samt ekkert of skemmtileg við hann svo að hann haldi sér í ágætis fjarlægð. :)

 
Þann 23 september, 2006 16:53, sagði Anonymous Nafnlaus...

Já, ég veit það ekki!!!

 
Þann 25 september, 2006 11:12, sagði Anonymous Nafnlaus...

Mér finnst að þú eigir ekki að vera hrædd og fara þarna á þriggja vikna fresti og þá sérstaklega þegar ég kem :) hehehe

 
Þann 25 september, 2006 15:48, sagði Anonymous Nafnlaus...

Ragna við förum á þennan stað í næstu viku. Það er ekki að ræða neitt annað. Mememe

 
Þann 25 september, 2006 17:24, sagði Blogger Albína...

Þú ert nú meiri hözzlerinn stelpa!

 
Viltu tjá þig?

20. september 2006

Litla græna bókin

Til að koma þessari ógeðslegu færslu í burtu.
Gleymdi að segja í gær að ég fékk litla græna bók gefins.
Ég má ekki selja bókina. Bókina fékk ég frá The Gideons International. Jámm ég fékk Nýja Testamentið ;)
Það merkilegasta finnst mér er að framarlega í bókinni er John 3:16 á 26 tungumálum. Orðrétt stendur: “versið er hér á 26 af mikilvægustu tungumálum í heiminum.” Haldið þið ekki að mín hafi bara fundið íslenska útgáfu.

19. september 2006

Lyktandi sólskin í París?

Síðustu vikuna hefur ágerst lykt inni í eldhúsinu. Við vorum búnar að fara í gegnum allt sem okkur mögulega datt í hug en aldrei fundum við hvaðan lyktin kom. Enda mjög erfitt að átta sig á því. Í kvöld kom Margrét í heimsókn og við fórum í gegnum allt saman - tókum meira að segja eldavélina fram (og vei fann svarta tappann sem vantaði á espressó könnuna mína) en ekkert gekk. Við gáfumst loks upp - fórum að sinna öðrum hlutum. Svo þegar Margrét var að fara þá fór ég aftur af stað og fann út að þetta var kartöflupokinn minn. Ég sver það að ég keypti þennan poka fyrir rúmri viku síðan og kartöflurnar efst voru í fínu lagi. Hins vegar var neðsta lagið ógeðslegt, lak vökvi úr því og spriklandi svona hvítir ormar. Virkilega ógeðslegt! En já ég er búin að þrífa allt sem mögulega gat komið við þetta, keypti meira að segja svona lyktar-bakteríu-drepandi sprey og spreyjaði ofan á. Vonum að þetta hafi komist í samt lag á eftir.

Annars er svona helst að frétta að ég tók að mér að taka stelpu í grunnnámi í aukatíma. Mamma hennar og allt kom með til að tryggja það að hún fyndið e-n til að hjálpa. (þær bönkuðu á allar skrifstofurnar). Flestir vita hversu erfitt ég á með að segja nei, sérstaklega svona augliti til auglitis. Jæja, þetta er vel borgað en málið er að ég hef aldrei hjálpað manneskju sem kann alveg efnið. Hún vildi bara hafa e-n hjá sér til að staðfesta að þetta væri rétt og hlýða henni yfir efnið. Ef þið munið eftir sjónvarpsþáttunum Gilmore Girls. Munið þið eftir einni persónunni, Paris? Þetta er í fyrsta sinn sem ég hitti e-n sem er alveg eins, vissi ekki að fólk gæti talað svona hratt í alvörunni. Ég er sem sagt með Paris úr Gilmore Girls í aukatímum ;)

Fór annars í bíó í dag á Little Miss Sunshine (takk Valla og Ásdís fyrir ábendinguna). Vissi ekkert um hvað myndin var en hún var alveg bráðskemmtileg. Mæli með henni.

Þann 19 september, 2006 22:30, sagði Blogger Valla...

Já þetta er góð mynd. ;)

 
Þann 20 september, 2006 19:30, sagði Anonymous Nafnlaus...

til lukku með masters-skráninguna og vá hvað það er óstjórnlega fyndið að þú sért með paris í einkatímum!!! :D

 
Þann 20 september, 2006 19:34, sagði Anonymous Nafnlaus...

heyrðu var að fatta eitt: hún Hanna (ein af eðlunum) var að vinna við svona fMRI í sumar! það var víst svakastuð...

 
Þann 25 september, 2006 17:26, sagði Blogger Albína...

Við Erika elskum Gilmore Girls! Ég verð að muna að segja henni frá þessu!

 
Viltu tjá þig?

15. september 2006

Umsókn...

...um að fá mastersgráðu hefur verið útfyllt og skilað inn til deildarinnar.

12. september 2006

Eitt stórt bros :D

Mér líður eins og heiminum hafi verið lyft af herðum mér ;)

Ég var í tíma áðan í fundastofunni. Alveg þegar tíminn er að vera búinn fara allir prófessorar í deildinni að tínast saman fyrir utan. Nokkrir halda á bláum bókum (blue book er heitið yfir prófbækur, þ.e. bækurnar/heftin þar sem maður skrifar niður lausnirnar á prófunum). Vá hvað ég stressaðist upp. Það var greinilega að byrja deildarfundur þar sem MÁLEFNIÐ á dagskrá voru doktorsprófin okkar. Klukkutíma síðar er bankað á allar skrifstofurnar hjá okkur 2. árs nemum. Ég fékk tvo þumla upp. Ég náði öllum prófunum mínum!!!

Ég hef varla getað tekið brosið af síðan þá, ég hálfvalhoppaði heim og ég bara finn hvernig að hefur létt yfir mér ;) Í fyrsta sinn frá því ég byrjaði í náminu hérna þá finnst mér eins og ég eigi heima hérna. Þessi próf vofðu alltaf yfir mér og vá hvað það er gott að vera komin í gegnum þau.

Svo er ég líka búin með eina viku í skólanum og ég held barasta að allir kúrsarnir mínir séu frábærir. Mjög áhugaverður einn kúrsinn sem heitir tölfræðilegar aðferðir í fMRI (functional MRI, MRI = segulsneiðmyndir). Einn prófessor sem hefur mikið unnið í því og þetta hljómar allt saman mjög spennandi.



Þann 12 september, 2006 15:39, sagði Anonymous Nafnlaus...

Til hamingju elsku Ragnheiður! Þetta er ekkert smá flott hjá þér;)
Nú verðurðu að gera eitthvað skemmtilegt fyrir sjálfa þig í tilefni dagsins, fara á "shopping spree" eða eitthvað!

 
Þann 12 september, 2006 16:00, sagði Anonymous Nafnlaus...

til hamingju með þetta

 
Þann 13 september, 2006 02:34, sagði Blogger Valla...

Hey til hamingju!

 
Þann 13 september, 2006 04:42, sagði Anonymous Nafnlaus...

Hjartanlega til hamingju með þetta!!! :)

 
Þann 13 september, 2006 05:36, sagði Anonymous Nafnlaus...

Til hamingju Ragna mín með þennan áfanga sem er hreint frábær hjá þér. Ég reyndar efaðist aldrei um að þetta gengi ekki hjá þér. Bestu óskir um áframhaldandi velgengni í skólanum. Kristján Pétur biður að heilsa

 
Þann 13 september, 2006 12:17, sagði Anonymous Nafnlaus...

Til hamingju með þetta.
Ertu þá kominn með doktorsprófið?

 
Þann 19 september, 2006 16:29, sagði Anonymous Nafnlaus...

jahúúú! til lukku!!! :D

 
Viltu tjá þig?

11. september 2006

5 ár

Skrítið að búa hér í New York borg fimm árum eftir atburðina hörmulegu. Ég man ennþá hvar ég var þegar ég heyrði fyrst um árásirnar. Stóð úti í porti fyrir aftan gamla skóla í MR og var á leiðinni heim. Hefði aldrei dottið í hug þá að fimm árum seinna myndi ég búa í New York, hringiðu þeirra atburða sem voru að gerast akkúrat þá.

Þessa atburða var augljóslega minnst í dag og þrátt fyrir að hafa aðeins labbað í skólann og til baka aftur þá tók ég eftir að það átti að vera minningarganga hérna í götunni í kvöld (var auglýsing á hurðinni hjá mér), stúdentar voru að safna í sjóði til styrktar börnum fórnarlambanna, ein stúlka stóð á miðjum campus með fullt af kertum fyrir framan sig og las upp nöfn fórnarlambanna.

Svo í kvöld þegar ég var að horfa á sjónvarpið þá kom allt í einu bein útsending frá Hvíta húsinu - ég horfði á 20 mín langa ræðu Bush. Eina sem ég man eftir var áhersla hans á að “við” værum í stríði og það væri ekki búið, “við” myndum ekki láta “illu öflin” í Miðausturlöndum vinna, það sem þeir “illu” væru hræddastir við væri frelsið og það allra mikilvægasta væri að halda áfram að stuðla að áframhaldandi frelsi. Æi ég veit ekki hvað maður á að segja við svona ræðum, kannski af því maður er ekki vanur að hlusta á svona predikanir þá horfir maður á þetta öðruvísi augum. Þetta virkar svona á mig sem hvatningarræða til að réttlæta allt sem hefur verið gert síðustu fimm árin.

Að öðrum málum, sá hóp iðka karate úti áðan á leið minni heim. Var að hugsa um að horfa á en ákvað svo að það væri kannski ekki alveg viðeigandi. Annars eru helstu afrek lok síðustu viku hjá mér að hafa næstum því farið á Dikta tónleika á Piano’s, stað sem er á Lower East Side . Næstum því, í þeirri merkingu að við komum of seint og misstum af tónleikunum. Skemmti mér alveg ágætlega þrátt fyrir það og hitti alveg fullt af Íslendingum.

6. september 2006

Fyrsti fyrirlesturinn búinn

Vá ég er búin að kenna fyrsta tímann minn. Þó nokkuð margir eldri en ég. Einn var meira að segja í svona bláum spítalabúning.

Fór beint eftir kennsluna í matvörubúðina og keypti gulrætur. Fór svo heim og bjó til gulrótarsúpu (úr bókinni The Joy of Cooking) sem heppnaðist svona líka mjög vel. Notaði að sjálfsögðu nýja blandarann minn sem er vel á minnst alveg frábær. Súpan var kannski í þykkara laginu en það var allt í lagi. Ég er bara stolt af sjálfri mér að hafa eldað gulrótarsúpu og hananú.

Annars er ég bara ánægð með hann Magna - hann bara kominn í úrslitaþáttinn. Áfram Ísland ;)

Þann 07 september, 2006 10:27, sagði Anonymous Nafnlaus...

Var hann í "scrubs"???

 
Þann 07 september, 2006 12:21, sagði Blogger Ragna...

Já!!!!

 
Þann 07 september, 2006 13:10, sagði Anonymous Nafnlaus...

Hæ Ragnheiður,

Takk fyrir að benda okkur á blandarann, við keyptum okkur líka alveg eins;)

 
Þann 09 september, 2006 01:13, sagði Blogger Valla...

Kúl að blandarinn virkar ;)

 
Þann 11 september, 2006 01:48, sagði Blogger Albína...

Við Erika eigum blandara hér á Pinehurst, hann er ennþá í kassanum enda er eldað hér svona 2 í mánuði...

 
Viltu tjá þig?

5. september 2006

Skólinn byrjaður á ný

Mér líst bara vel á námskeiðin mín þessa önnina. Vona að ég verði á sömu skoðun eftir vikuna.

Fór á Phillies hafnaboltaleik með Harold, Stefáni og Völlu á laugardaginn. Ég verð bara að segja að mér fannst bara gaman. Leikvangurinn er mjög flottur, enda byggður 2004. Það var reyndar hellirigning alveg þar til leikurinn var flautaður af stað. Annars urðum við vitni að bónorði á leiknum. Kom upp á skjáinn á leikvanginum og allt saman. Ég svona í alvöru talað hélt það gerðist bara í bíómyndunum.

Annars var alveg ekta prinsessuafmæli í gær. Litla prinsessan fékk nánast nýtt herbergi með alls konar dóti sem prinsessur þurfa. Herbergið hafði verið lokað í viku þar sem álfarnir þurftu smátíma til að smíða öll húsgögnin. Held sú litla hafi bara verið ánægð með fínu gjöfina. Hver veit nema ég komi með myndir e-n tímann ef Bragi er góður við mig.

Þann 05 september, 2006 22:53, sagði Blogger Albína...

Ég myndi ekki segja já ef einhver bæði mín á skjá á íþróttaleikvangi en kannski er ég bara skrítin.
Kannski góð leið til að fá fólk til að segja já sem annars myndi ekki gera það, erfitt að segja nei fyrir framan fullt af fólki.

 
Viltu tjá þig?

1. september 2006

Aaaaaaaaaaaaaaaaaaaa

Vikan er búin að vera svona aaaaaa hjá mér.

Valla kíkti í heimsókn á mánudaginn í partíið sem ég var með. Það var bara skemmtilegt og enduðum á að fara að sofa um svona þrjúleytið. Daginn eftir ætluðum við að enda á að ferðast til Princeton. Eftir víðtæka leit á netinu fundum við út að ekki var hægt að fara í Six Flags skemmtigarðinn frá Princeton nema með því að ferðast í klukkutíma til Philly eða New York. Þar sem við ætluðum á miðvikudeginum og vorum nú ekki til í þessar extra fjórar klukkustundir* þá var það eina sem mér datt í hug að hringja í “örvæntingu” minni í Siggu. Fengum við bílinn hennar í láni. En þá þurfti ég líka að ferðast fyrst til Delaware, sækja bílinn og keyra svo í einn og hálfan tíma til Princeton á meðan Valla fór beint til Princeton. Til að enda þessa sögu þá gekk þetta allt saman upp, mér tókst ekki að villast neitt alvarlega og daginn eftir fórum við Valla í Six Flags þar sem við báðar öskruðum í kór í rússibönunum. Aaaaaaa er sem sagt öskrið í okkur Völlu í rússibönunum og af pirring þegar við uppgötvuðum að það að eiga bíl í USA er nauðsynlegt.

Princeton er æðislegur bær og háskólakampusinn líka. Ég náði nú ekki að skoða bæinn sjálfan rosalega mikið en við keyrðum nú samt í gegnum hann. Byggingarnar eru í svona Harry Potter stíl eða amk eins og maður ímyndar sér að Harry Potter stíllinn sé. Allt öðruvísi en hér hjá mér í Columbia. Aaaa hér er sem sagt svona “aaaaa hvað þetta er flottur og sætur bær”.

Annars hefur mér verið úthlutaður TA ;) Ég fæ einn af fyrsta árs doktorsnemunum til að þræla fyrir mig - eða svona þannig lagað. Samt fyndið að fá svona aðstoðarmanneskju ;) Hér er aaaaa fyrir “hahaha”.

*fjórar klukkustundir eru 1klst til Philly/NYC + 1 klst til að komast aftur til Princeton og það bæði til að komast í skemmtigarðinn og heim aftur.

Þann 02 september, 2006 08:42, sagði Anonymous Nafnlaus...

aðalspurningin er hversu marga bangsa þú vannst í six flags! Hvað vannstu marga bangsa?

 
Þann 02 september, 2006 10:07, sagði Blogger Ragna...

heldurð'ekki að ég hefði minnst á það ef ég hefði unnið bangsa ;)

 
Þann 03 september, 2006 09:30, sagði Anonymous Nafnlaus...

Jú reyndar, núna þegar þú nefnir það :)

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)