Ragna í New York

5. desember 2008

Maturinn

Þar sem Kristín Ásta spurði þá ákvað ég að setja heila færslu í indverska matinn sem ég borðaði hjá foreldrum Meha. Nú er ég ekki góð að muna heiti á réttum en orðrétt frá Meha:
Let's see...you ate dal, rajma, chicken curry (two different types) palak paneer, bhindi (okra), kofta, chickpeas (chole) and gulab jamun. Man, I'm getting hungry writing this down. That's all I remember.
Og ég get sagt ykkur að þetta er allt mjöööög gott. Karríkjúklingurinn var sterkastur. Það er ekki víst að hægt sé að finna þetta á matseðli á veitingastað en þetta er víst mjög hefðbundinn indverskur matur sem maður fær í heimahúsi.

Þann 08 desember, 2008 08:41, sagði Blogger beamia...

namminamm! og ekkert smá skemmtileg ferðasaga :)

 
Þann 09 desember, 2008 11:32, sagði Blogger Unknown...

Þetta hljómar allavega mjög vel.
Kveðja; Kristín Ásta.

 
Viltu tjá þig?

3. desember 2008

Suður-Karólína - ferðasaga

Þar sem ég tók samtals 3 myndir í ferðinni þá verðið þið að láta ykkur nægja söguna, kannski get ég reddað myndum síðar meir.

Ég fór í heimsókn til foreldra Meha yfir þakkargjarðarhátíðina. Við vorum 5, Meha,Olga, Arunabh og Abhimanyu. Meha er upprunalega frá Indlandi og bjó með mér fyrstu tvö árin mín hér, Olga er frá Perú og er í doktorsnámi í spænsku hjá Columbia, Arunabh og Abhi eru báðir indverskir, Arunabh í kínversku hjá Columbia en Abhi vinnur hjá tryggingafyrirtæki í Stamford Connecticut. Við lögðum sem sagt af stað um 3 leytið á miðvikudaginn fyrir viku og tók það okkur tæpan klukkutíma að komast út af Manhattan. Ferðin suður litaðist aðeins af árásunum á Bombay þar sem það gerðist um það leyti sem við vorum að leggja af stað og ennþá lítið vitað hvað væri að gerast. Við vorum komin rétt um miðnætti til Williamsburgh í Virginíu þar sem Alap vinur Meha býr. Hann og meðleigjandi hans (báðir indverskir) tóku alveg höfðinglega á móti okkur. Þeir voru búnir að elda þríréttaða máltíð og eftir forréttinn þá voru við alveg furðulostin að heyra að aðalrétturinn væri eftir. Þeir voru mjög höfðinglegir og létu okkur eftir rúmin sín og allt. Við stóðum reyndar öll í þeirri meiningu að Alap myndi koma með okkur en um morguninn tilkynnti hann okkur að hann kæmist ekki frá vegna hópverkefnis. 
Þannig að á fimmtudeginum héldum við áfram til Suður-Karólínu. Lítið um stopp fyrir utan öll þessi rest areas á leiðinni. Foreldrar Meha voru líka búin að banna okkur að borða mikið fyrir utan snakk þar sem við áttum að fá stóra máltíð þegar við kæmum. Enda stóðst það, við vorum komin á leiðarenda um klukkan hálfsex og okkur beið stórmáltíð að indverskum hætti. Mamma Meha var með miklar áhyggjur að ég myndi ekki höndla sterka matinn en það reddaðist með mikið af jógúrtsósu. Síðasta daginn var hún farin að láta mig fá sérskál af jógúrt með :)
Foreldrar Meha búa í Greenville í mjög sætu húsi. Það lítur út fyrir að vera miklu minna en það er þegar maður kemur inn. Þau eru nýbúin að láta gera upp háaloftið þannig að nú eru tvær hæðir. Við stelpurnar fengum að sofa uppi en þar er mikið og stórt rými með sjónvarpsholi og skrifstofu ásamt baðherbergi með bestu sturtu sem ég hef farið í hér í Bandaríkjunum. Niðri er skrifstofa, stofa, borðstofa, eldhús, sólstofa, tvö svefnherbergi og bað. Allt mjög opið og skemmtilegt. Til að toppa þetta allt saman er alveg risastór garður.
Annars liðu dagarnir með mat og aftur mat. Mjög góður indverskur matur en ég held ég hafi samt fengið of mikið af honum á of stuttu tímabili. Á föstudeginum fórum við í gönguferð í Ceasars Head þjóðgarðinum. Rosalega flott þarna og skemmtilegt svæði. Mæli með að fólk kíki ef það á e-n tíman leið um. Eftir það kíktum við niður í miðbæ Greenville (þar sem þau búa). Miðbærinn er mjög hreinn og skemmtilegur, hann hefur víst fengið fjölda verðlauna og einhver bær í Belgíu held ég kom til að skoða hvernig þeir gætu gert sinn miðbæ svipaðan. Í miðjum bænum eru manngerðir fossar (áin var fyrir) og alveg rosalega skemmtileg brú sem lýsist upp eftir myrkur. Þegar við mættum í miðbæinn þá var jólaskemmtun í gangi. Akkúrat þegar við komum út var verið að syngja jólalög og svo 10mín seinna var kveikt á jólatrénu. Það var inni í litlu jólaþorpi þar sem gervisnjó var blásið yfir. Að sjálfsögðu dró ég Olgu og Meha með mér að skoða það. Um kvöldið fórum við öll í bíó og svo enduðum við stelpurnar á að fara aðeins út niður í bæ. Strákarnir voru eitthvað þreyttir en það var ágætt fyrir okkur því þá gátu þeir sótt okkur, ekkert vesen. Við byrjuðum á e-m veitinga/bar stað þar sem Meha fannst of mikið af Indverjum inni á japanska barnum sem við ætluðum inn á. Eftir að hafa verið þarna í 2 mínútur byrjuðu slagsmál (mín fyrstu barslagsmál sem ég hef orðið vitni af hérna úti) og við ákváðum að láta okkur hverfa. Næst fórum við á lítinn sætan bar sem vinur bróður Meha hafði mælt með. Enduðum kvöldið (þegar okkur var hent út við lokun) þar enda ágætis stemmning. Stemmningin þarna í bænum minnti mig dáldið á Reykjavík fyrir 5 árum þ.e. áður en allt varð litað af slagsmálum niðri í bæ um helgar. Allir staðirnir eru einmitt við eina götu (Main Street) og skemmtileg stemmning utan sem innan dyra.
Á laugardeginum fórum við að versla þar sem það var hellidemba allan daginn, ég gerði ágætiskaup í TJMax en strákarnir slógu okkur stelpunum algjörlega við í innkaupum þar sem þeir fóru í mollið á meðan við sátum á kaffihúsi að vinna. 
Við keyrðum svo til baka á sunnudeginum, lögðum af stað kl. átta um morguninn og vorum komin inn á Manhattan kl. 1 eftir miðnætti. Versti parturinn var Virginía þar sem var svakaleg umferð og á einum stað alveg rosaleg þoka þar sem maður sá ekkert til hliðar og rétt 3 bíla framfyrir sig.
Ég hafði verið svo séð að finna gjafir handa foreldrum Meha þegar ég flaug út í ágúst (gott að fá boð svona snemma). Ég hafði fundið Hávamál á ensku ásamt rosasætum víkingi úr steinum og ull með einakrónu sem hjálm og skjöld. Aðrir voru líka séðir, Olga mætti með Perúskan líkjör, Pisco, og bjó hún til Pisco Sour handa okkur öllum. Mjög góður drykkur og tekur eiginlega margarítu fram. Enda er hún búin að bjóða okkur Meha að kíkja í heimsókn og drekka Pisco Sour. Abhi bjó síðan til spænska ommilettu handa okkur þar sem hann gufusteikti hana í raun og veru. Hann var mikið búin að storta sig af ommilettunni þannig að hann neyddist til að búa hana til síðasta morguninn. Enda var hún mjög góð.
Ég skilaði bílaleigubílnum á mánudagsmorgun. Þurfti að vakna klukkan 7 (eftir 4 tíma svefn) þar sem ég fann bara bílastæði sem þurfti að rýma fyrir kl. hálfátta. Fór því á skrifstofuna beint eftir það og var þess vegna alveg dauð um hádegisbil vegna lítins svefns og mikils aksturs. En þetta var vel þess virði og mjög skemmtileg ferð.

Þann 05 desember, 2008 06:51, sagði Blogger Unknown...

Vá hvað ég hefði verið til í að vera þarna með þér. Hvaða indversku rétti fékkstu að smakka?

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)