Bíóferð
Nýr póstur jibbý...
Verð bara eiginlega að minnast á bíóferð sem mun seint gleymast. Við Ana fórum á nýjustu Almodóvar myndina Broken Embraces í Lincoln Plaza um daginn. Þetta byrjaði þegar Ana ætlaði að opna gula m&m pokann sinn og alveg sama hversu varlega hún gerði það þá leit konan fyrir framan strax mjög snöggt við og gaf henni illt augnaráð. Við ypptum bara öxlum því hvað á maður að gera? Bíóið selur þessa poka í kaffisölunni og það er nú varla til þess að taka með sér heim eftir bíóið og svo var hálfur salurinn líka að kjamsa og smjatta á poppkorni með tilheyrandi skrjáfri. En já hálfri mínútu seinna þá segir konan "viltu hætta þessu" og Ana getur lítið annað sagt en "hvað viltu að ég geri?" þá hálföskrar konan "hættu þessu" og snýr sér til baka og setur hattinn sinn á hausinn eins og hún vilji blokka það að við sæjum. Reyndar tók hún hann aftur niður eftir um tvær mínútur en þetta var ansi furðuleg hegðun.
En þetta var ekki nóg, ég sat við ganginn þarna í bíóinu og Ana næst við hliðina á mér. Um miðja mynd sé ég útundan mér einhverja hreyfingu og lít snöggt við og sé ég ekki þessa litlu mús. Mér brá alveg svakalega og kipptist alveg til enda verð ég mjög taugaveikluð yfir músum - byrja að ímynda mér að þær séu að fara að hlaupa upp um mig oþh. Eftir þetta er ég með vakandi augu yfir músinni og sé hana nokkrum sinnum hlaupa ganginn. Eftir einhvern tíma þá beygir stelpa, sem sat fyrir aftan Önu (ekki einu sinni fyrir aftan mig sem var við ganginn) , sig yfir mig og hvíslar "geturðu hætt að líta svona til hliðar, ég veit að það er mús þarna en komdu þér yfir það þetta er New York og þú verður bara að venjast músum". Ég hefði kannski skilið þetta að einhverju leyti ef hún hefði setið fyrir aftan mig eða ef ég hefði eitthvað blokkerað myndina fyrir henni en ég sat þannig að ég þurfti að sitja smá á skjá til að horfa á tjaldið og alls ekki fyrir henni.
En nóg með það við Ana drifum okkur út eftir myndina til að komast frá músum og taugaveikluðum konum. Það var frekar kalt og við ætluðum að reyna að finna leigubíl sem virtist ómögulegt. Við sjáum svo strætó koma sem fer beint heim þ.a. við hlaupum og náum í hann. Á meðan erum við að ræða þessar taugaveikluðu bíókonur og vorum ekkert að pæla í neinu. Allt í einu hallaði stelpan sem sat fyrir aftan okkur í strætónum og sagði "þið verðið að fyrirgefa hvernig ég lét í bíóinu, ég get verið dálítið viðkvæm fyrir allskonar hreyfingum og hljóðum þegar ég fer í bíó" var þá ekki mætt stúlkan sem hafði skammað mig fyrir höfuðhreyfingar mínar útaf músinni. Ohhh hvað ég vildi að ég hefði verið með einhverjum Íslendingi á þessum tímapunkti...
Annars margt búið að gera síðan ég skrifaði síðast. Afmæli og jól, heimsóknir og ferðalög, óperan og rockband. Ég er vel á minnst ekki búin að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hef ekki hugmynd um hvað ég myndi kjósa þar sem mér finnst ég vita allt of lítið um málið til þess að geta gefið ábyrgt svar. Annars er þorrablót hérna næstu helgi þannig að framundan er ofskammtur af Íslendingum, íslensku og íslenskum mat.
Hahah... henni var nær að vera eitthvað að ibba gogg. En já, stundum getur verið gott að tala mál sem fáir skilja. Ég er t.d. búin að kenna Frank mörg íslensk orð, bara í þeim tilgangi að geta sagt þau við hann án þess að neinn annar skilji.