Það er búin að vera stórskrítin vika í þessum heimi. Fjöldamorð hér í USA og stórbruni í Reykjavík. Skrítið hvað stundum koma tímar þar sem allt hefur þvílík áhrif á mann.
Þessi vika er búin að vera tilfinningalegur rússibani hjá mér (svo maður sletti góðri ensku). Hluti af því er að ég hef hugsað mikið aftur um 10 ár. Ég veit ekki hvað þeir sem lesa þessi skrif mín þekkja mig vel og hingað til hef ég ekki verið þekkt fyrir að skrifa það sem mér liggur innst á hjarta. Ég ætla hér með að breyta aðeins út af vananum. Dagurinn í dag er dagur sem ég trúði varla að myndi renna í hlað fyrir 10 árum.
Kristín Halla Haraldsdóttir (f. 9. apríl 1981 - d. 20. apríl 1997)
-- Heiðruð sé minning þín --
Fermingarmyndin af Kristínu Höllu, en hún fermdist á 14 ára afmælisdaginn sinn, 9. apríl 1995.
Byrjum á byrjuninni. Ég ólst upp í Mosfellsbænum (eða Mosfellssveit eins og það hét fyrst) og bjó ég þar fyrstu 13 ár ævi minnar.
Kristín Halla til vinstri, ég til hægri - við erum ca 1 og 2 ára gamlar. Ég hugsa að flestir sem muna eftir mér þaðan (ef þá einhverjir) kveikji fyrst ekki á perunni þegar þeir heyra talað um Rögnu. En þegar minnst er á systurnar, Kristínu og Rögnu þá gæti verið að fleiri átti sig. Ég átti sem sagt tvær systur, Sigga Sóley sem býr hérna í USA og er töluvert eldri en ég og Kristínu Höllu sem var rétt tæpum 19 mánuðum eldri en ég. Kristín Halla lést fyrir nákvæmlega 10 árum í dag, þá rúmlega 16 ára gömul.
Ég hef aldrei áður fest niður á blað hvað ég gekk í gegnum þegar ég missti systur mína. Nokkrum mánuðum eftir að hún lést þá sá ég mikið eftir að hafa ekki skrifað minningargrein um hana. En það var ekki rétti tíminn þá og hefur ekki verið hingað til. Góður vinur sagði hins vegar við mig um daginn að því lengur sem maður ýtir erfiðum hlutum á undan sér því erfiðara verður það að komast yfir hjallann. Í dag þegar 10 ár eru liðin finnst mér loksins vera rétti tímapunkturinn.
Ég á held ég engar minningar fyrir 20. apríl 1997 þar sem systir mín var ekki. Við vorum alltaf saman og sést það kannski best á myndum sem teknar voru af okkur.
Kristín til vinstri, ég til hægri - sjáið þið hæðarmuninn? Ætli við séum ekki ca 11 og 12 ára (giska ég).
Ég hef margoft heyrt frá því sagt að henni var mikið annt um að vernda mig þegar ég var lítil. Svo annt að það þurfti að koma mér í leikgrind til þess að skilja okkur að. En hún lét ekki slíkt smáatriði hindra sig, smá tillhlaup og hún var komin ofan í með mér. Svona eftir á að hyggja þá hef ég í laumi hlegið að því að systir mín kom mér í gegnum fyrstu 9-10 skólaár ævi minnar. Eftir það þurfti ég að byrja að vinna sjálf. Og það er alveg rétt, þegar hún byrjaði í sex ára bekk þá gat ég ekki beðið eftir að hún kæmi heim og kenndi mér það sem hún lærði í skólanum. Við æfðum saman fótbolta, frjálsar, handbolta, fórum saman á leikjanámskeið, lærðum báðar á píanó og ég meira segja "neyddist" til að fara í skólagarðana og á myndlistarnámskeið, því að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að gera eitthvað sem Kristín gerði.
Ég veit ekki hvort þið getið ímyndað ykkur hvernig það er að alast upp og vera aldrei ein og svo allt í einu á svipstundu er maður orðin einkabarn.
Kristín var besta vinkona mín, þó að ég hafi kannski ekki litið það þeim augum þá. Þrátt fyrir það vorum við eins og hvítt og svart. Hún var hávaxin, dökkhærð, tigin í framburði, alltaf róleg, vel skipulögð - held ég hafi aldrei séð herbergið hennar í óreiðu. Ég aftur á móti var alltaf minnst í mínum bekk, ljóshærð framan af aldri, alltaf einhver galsi í mér, óreiðan í hámarki og aldrei skipulögð.
Ég held að vissu leyti vorum við mótvægi við hvora aðra. Kristín var handlagin mjög, elskaði plöntur og blóm og var alltaf eitthvað að stússast í garðinum og seinna meir hafði hún mikinn áhuga á sögu og landfræði ásamt alls konar vísindum. Ég held að þar sé skýringin á því afhverju listahæfileikum mínum, kunnáttu um plöntur alls konar, sögu og landfræði hefur alltaf verið ábóta vant, ég vissi að Kristín vissi og gæti þetta og til hvers þurfti ég þess þá?
Nokkrum mánuðum eftir að systir mín lést þá kom í ljós að hún var með Wilson veiki (e. Wilson's disease
google). Hún veiktist sem sagt mjög snögglega og eftir því sem ég best veit þá hefði aldrei verið möguleiki að bjarga henni á þeim tímapunkti, alveg sama hvað hefði verið gert nema fyrir algjöra heppni því eina leiðin var að hún fengi nýja lifur strax. Læknarnir gerðu allt sem þeir gátu en hún lést í sjúkraflugi yfir Noregi á leið til Danmerkur til meðferðar.
Allt þetta gerðist á rúmum degi - frá laugardagskvöldi til sunnudagskvölds. Þegar ég horfi til baka þá sé ég hvern atburð fyrir sig spilast í hægri endursýningu. Næstu vikur á eftir eru í algjörri móðu hins vegar. Á þessum tíma var samt eitt sem ég hugsaði fram og til baka. Hvernig verður hægt að lifa án þess að Kristín sé hérna að styðja við bakið á mér.
Þrátt fyrir miserfið tímabil í mínu lífi þá veit ég að Kristín hefur fylgt mér eftir síðustu 10 árin og stutt við bakið á mér og ég trúi að það muni hún gera í framtíðinni einnig. Það er margt sem ég á eftir að gera á minni ævi og ég veit að ef hún hefði ekki verið mér til stoðar frá því ég fæddist þá væri ég ekki hér þar sem ég er í dag.
Ég veit ég á eftir að hugsa mikið til Kristínar í dag og ef ég væri heima á Íslandi þá myndi ég kíkja að leiðinu hennar. Í gegnum tíðina þá hefur sá staður virkað mjög róandi og hughreystandi á mig. Því langar mig að biðja ykkur, ættingja og vini, sem eru heima á Íslandi að kíkja þangað við tækifæri og skila góðri kveðju frá mér.
Að lokum vil ég enda þetta með ljóði sem ég fékk að velja á sínum tíma og var sungið í jarðarförinni hennar Kristínar Höllu. Alltaf þegar ég heyri þetta lag eða sé gleymérey þá hugsa ég til systur minnar sem var alltaf til staðar þegar ég þurfti á að halda.
Blátt lítið blóm eitt er
Blátt lítið blóm eitt er,
ber nafnið gleymdu’ ei mér.
Væri ég fuglinn frjáls
flygi’ ég til þín.
Svo mína sálu nú
sigraða hefur þú
engu ég unna má
öðru en þér.
Þýsk þjóðvísa
vá, það er slatti að gera hjá þér næstu vikur!
og svo þegar þetta allt er búið þá verður gaman :)
Það er svakalega mikið að gera sé ég. Ég sé einmitt sjálf fram á rosalega mikla vinnu á næstunni enda skólinn hér að verða búinn líka.
Ég myndi sko bara fara á útskriftina, það er örugglega gaman. Nema náttúrulega ef þetta er lengra en athafnirnar hér heima, þær geta verið ansi langar.
Mér finnst æðislegt að þú skulir verða heima þegar ég gifti mig. :D
Ætli að flokkarnir kíki ekki á atkvæðið og skili því bara ef það er þeim í hag? ;)
HÆ HÆ,
Ég og Sirrý vorum ákkúrat að tala um það að við verðum að ná að hittast í sumar þar sem við nú klúðruðum því um jólin. Miðað við tímann sem þú verður á Íslandi og tímann sem ég verð á Íslandi ættum við að hafa ca 3 vikur til að koma því í verk. Við verðum að redda því. Allavega góða skemmtun í öllu stressinu, bið að heilsa, Lára
ég legg til að þú takir frá tímann sem fer í útskriftarathöfnina og hafir sem svona leti-tíma annað hvort bara sofa eða sleikja sólina og borða ís - átt það skilið eftir allan dugnaðinn! :)
Hæbb, já við látum það bara gerast að hittast. Komin tími til ;).
Var ekki æði á Bjarkartónleikunum?!?