Ragna í New York

28. apríl 2007

Ísland og næsta vika

Var að enda við að panta flug heim. Flýg 30. júní og kem til baka aftur 9. ágúst. Ákvað að vera yfir verslunarmannahelgina þetta árið.

Sigga, Harold, Stefán og Kristín voru að yfirgefa borgina. Harold átti erindi hingað og við Sigga og krakkarnir horfðum á hafnabolta og fórum svo og köstuðum frisbee í Central Park.

Næsta vika verður rosaleg hjá mér. Tvö semiverkefni í lagatölfræðikúrsinum sem ég þarf að hugsa um fyrir mánudag og þriðjudag. Þarf að vera búin að herma eitthvað fyrir mánudaginn fyrir verkefnið sem ég er að vinna að í skólanum. Einnig er síðasti kennslutíminn minn á mánudaginn - þarf að undirbúa upprifjun og klukkutíma fyrir þann tíma á ég fund til að fá gögn sem þarf að greina fyrir fimmtudag. Á miðvikudag er ég á leið í MOMA með lagatölfræðibekknum mínum og eftir það um kvöldið eru svo Bjarkartónleikar með Albínu og Völlu veiii. Við ætlum aðallega samt að sjá Brynju Guðmunds spila á túbuna haha. Sama dag lét ég vera skiladag á 10% verkefni í bekknum mínum. Býst við að þau verði mikið að trufla mig fram að því þó ég sé búin að segja ég verði ekkert við á miðvikudaginn. Ég þarf sem sagt að greina e-r gögn fyrir fimmtudag. Síðan fyrir mánudaginn eftir viku verð ég að vera búin að semja lokapróf, tvær útgáfur ásamt því að vinna að sameiginlegu verkefni með Mladen sem ég vona að við þurfum ekki að flytja fyrr en fimmtudaginn 10. maí annars er ég dauð - ætla sko ekki að missa af Björk. Já og svo þarf víst að skila einkunnum í síðasta lagi 11. maí - amk fyrir þá sem útskrifast 15. maí.

Vel á minnst ég má víst taka þátt í útskriftarathöfninni 15. maí af því ég fékk mastersgráðuna í október síðastliðnum. Á boðskort og allt saman. Held ég geri það nú samt ekki fyrr en ég er búin með doktorinn ;)

Annars fyrir þá sem hafa áhuga þá er ég löngu búin að kjósa. Kaus 4. apríl og ég veit með vissu að atkvæði mitt er komið til sýslumannsins í Reykjavík sem á að koma því til kjörstjórnar. Hvernig ætli það sé með stjórnmálaflokkana heima. Þeir bjóðast til að koma atkvæði manns til skila. Ætli þeir myndi koma hingað til að ná í atkvæði manns ef maður nennti ekki að senda það í pósti og hefði engan til að koma því fyrir mann?

Reyni að pósta betur næst um sumarplön mín

Þann 29 apríl, 2007 05:02, sagði Blogger Sigurður Smári Sigurðsson...

vá, það er slatti að gera hjá þér næstu vikur!

 
Þann 29 apríl, 2007 07:00, sagði Blogger Ragnhildur...

og svo þegar þetta allt er búið þá verður gaman :)

 
Þann 29 apríl, 2007 07:21, sagði Blogger Unknown...

Það er svakalega mikið að gera sé ég. Ég sé einmitt sjálf fram á rosalega mikla vinnu á næstunni enda skólinn hér að verða búinn líka.

Ég myndi sko bara fara á útskriftina, það er örugglega gaman. Nema náttúrulega ef þetta er lengra en athafnirnar hér heima, þær geta verið ansi langar.

Mér finnst æðislegt að þú skulir verða heima þegar ég gifti mig. :D

Ætli að flokkarnir kíki ekki á atkvæðið og skili því bara ef það er þeim í hag? ;)

 
Þann 29 apríl, 2007 08:50, sagði Anonymous Nafnlaus...

HÆ HÆ,
Ég og Sirrý vorum ákkúrat að tala um það að við verðum að ná að hittast í sumar þar sem við nú klúðruðum því um jólin. Miðað við tímann sem þú verður á Íslandi og tímann sem ég verð á Íslandi ættum við að hafa ca 3 vikur til að koma því í verk. Við verðum að redda því. Allavega góða skemmtun í öllu stressinu, bið að heilsa, Lára

 
Þann 29 apríl, 2007 12:21, sagði Anonymous Nafnlaus...

ég legg til að þú takir frá tímann sem fer í útskriftarathöfnina og hafir sem svona leti-tíma annað hvort bara sofa eða sleikja sólina og borða ís - átt það skilið eftir allan dugnaðinn! :)

 
Þann 01 maí, 2007 14:18, sagði Blogger sirrygella...

Hæbb, já við látum það bara gerast að hittast. Komin tími til ;).

 
Þann 04 maí, 2007 11:59, sagði Blogger Unknown...

Var ekki æði á Bjarkartónleikunum?!?

 
Viltu tjá þig?

26. apríl 2007

Ísland - best í heimi!

Ekkert merkilegt búið að gerast síðan síðast. Varð bara að segja ykkur frá tveimur auglýsingum sem ég sá og heyrði af.

Rachel vinkona mín sagði mér að hún hafi heyrt auglýsingu í útvarpinu um daginn. Ung stelpa sem sagðist vera frá Íslandi og byrjaði svo að dásama hvað allir væru hraustir á Íslandi, lífslíkurnar væru með þeim hærri í heiminum osfrv. Sagði að ástæðan fyrir því væri að Íslendingar tæku fiskaolíu. Svona heyrði ég þetta amk. Það virðist því sem svo að það sé byrjað að flytja inn Lýsi til Bandaríkjanna. Getur einhver frætt mig um þetta meira?

Svo í sjónvarinu um daginn. Það var verið að auglýsa e-a ístegundina (man ekki eftir að hafa heyrt um þessa tegund áður, eitthvað með kanínu (bunny)) og það var búið að persónugera ís í skál. Ísinn var látin vera fræg stjarna að koma að rauða dreglinum og var að kvarta yfir að fá aldrei að vera í friði. Talaði á fullu um hvað ísinn dreymdi að gera. Endaði á "... I heard it's supposed to be nice in Iceland".

Ég ætlaði að springa úr hlátri. Hugsaði um alla vini mína sem geta endalaust borðað af ís. Ég sver það fólk borðar meira ís á Íslandi en hérna...

Þann 27 apríl, 2007 07:19, sagði Blogger Ragnhildur...

haha það er ábyggilega ekkert næs að vera ís á Íslandi, við borðum ís í hvaða veðri sem er

 
Þann 27 apríl, 2007 15:12, sagði Anonymous Nafnlaus...

Það er örugglega verið að meina Omega 3 fiskiolíu en ekki Lýsi án þess að ég viti það.. Bið annars bara að heilsa :)
Þórhildur

 
Þann 27 apríl, 2007 15:29, sagði Blogger Ragna...

Ef það er rétt er þá auglýsingin ekki dálítið skrítin? Held að ástæðan fyrir hreysti Íslendinga væri miklu frekar Lýsi að þakka heldur en Omega 3 fiskiolíu, eða hvað?

 
Þann 28 apríl, 2007 06:19, sagði Blogger Ragnhildur...

Sko, það er alveg omega-3 fitusýrur í lýsinu, þess vegna (+A og D vítamín) er lýsi svona hollt.
Omega-3 frá Lýsi er bara lýsi án vítamína (svona nokkurn veginn)

 
Viltu tjá þig?

22. apríl 2007

Gott veður!

English version below.

Fyrst vil ég þakka kærlega fyrir allar kveðjur sem þið hafið sent mér síðustu daga, bæði þær sem komu hér í athugasemdum, í tölvupósti og með símtölum. Mér þykir mjög vænt um að hafa fengið þær.

Það var partí hérna á föstudagskvöldið sem heppnaðist bara ágætlega. Í lokin þegar slatti var farinn, tókum við upp diskókúlu sem Meha á. Bara gaman að hafa diskóljós í stofunni.

Valla mætti á svæðið og gisti yfir nóttina. Þegar við vöknuðum og ætluðum að fá okkur brunch þá var svo æðislegt veður að ég ákvað að kíkja með henni niður í bæ. Allan daginn var heiðskírt og ábyggilega svona um 25 stiga hiti. Við fórum niður í Greenwich Village og fundum írskan pöbb sem var með ágætis brunch matseðil. Gengum síðan um, sáum flóamarkað, kíktum á Washington Square, í búðir, keyptum misnytsamlega hluti, sáum götulistamenn og margt fleira. Mér fannst alveg frábært hvað allir voru í góðu skapi, ótrúlegt hvað gott veður getur breytt móralnum. Á endanum var klukkan orðin svo margt að ég er viss um Geir hafi verið farinn að velta því alvarlega fyrir sér að hleypa Völlu aldrei aftur í heimsókn til mín í New York.

Eftir að hafa skilið við Völlu þá fór ég út úr Subwaynum á 96. stræti. Ákvað að fá mér frappuchinoinn á Starbucks sem við Valla náðum ekki að fá okkur sökum tímaskorts. Stelpan sem blandaði handa mér drykkinn blandaði vitlausan drykk svo á endanum lét hún mig labba út með tvö glös af frappuchino - hún vildi endilega að ég gæfi einhverjum hinn drykkinn. Hálfskrítið að labba með tvö glös af frappuchino - maður lítur út fyrir að vera svakagráðugur og það var ekki eins og ég ætti heima á næsta götuhorni svo ég gæti horfið á braut með sönnunargögnin, ég átti eftir að labba 15 götur upp Broadway. Á endanum ákvað ég að athuga hvort ég sæi ekki einhvern heimilslausan og gefa honum annað glasið. Sá á endanum mann sem ég ákvað að liti nógu mikið út til að vera heimilislaus. Rétti honum glasið og ég sá ekki betur en hann svolgraði þetta í sig. Fékk reyndar smááhyggjur eftir á að þetta væri ekkert svakalega hollt fyrir hann, vona bara að hann fái næringarefni annars staðar frá. Ég var samt voða ánægð með sjálfa mig, manni líður einhvern veginn miklu betur þegar maður hefur gefið af sér. Tók einmitt eftir að þeir sem urðu vitni af gjafmildi minni brostu allir voða fallega.



There was a party here on friday night and it was really great. At the end when a lot of people had already left, we decided to set up the disco light that Meha has. Really brilliant to have a disco light in the living room.

My friend Valla showed up for the party and stayed over. On Saturday after we went out for brunch we figured the weather was so nice that I decided to join her downtown to have brunch there. We went to Greenwich Village and found an Irish pub with a nice brunch menu. After that we walked around, saw a flea market, went to Washington Square which was crowded with people, looked at some summer dresses in clothing stores, saw street artsts and lot more. It's so great how everyone was in a good mood because of the great weather.

On my way back I decided to walk from 96th St. Got myself a frappuchino at Starbucks. The barista mixed my drink incorrectly so I ended up with two glasses. I didn't really know what to do with the second one and ended up finding a homeless person to give it to. Was a little bit worried that it was too unhealthy for him, I mean I don't know if he gets all the nutrients he needs. But it was great being able to give it to someone and it makes you feel all better about yourself. I actually noticed it made other people around me feel good too...

Þann 22 apríl, 2007 16:20, sagði Anonymous Nafnlaus...

Ohh. Nú langar mig í Frappuchino. Ég smakkaði svoleiðis í fyrsta sinn í London í sumar og fannst það algjört æði. :D

 
Þann 22 apríl, 2007 20:20, sagði Blogger Sigurður Smári Sigurðsson...

mmm... Frappuchino... ég hefði samt ekki þorað að þiggja það e-m ókunnugum - þú það væri þú ;-)

 
Þann 22 apríl, 2007 20:29, sagði Blogger Ragna...

Ekki ég heldur Siggi, þess vegna leitaði ég af einhverjum sem ég vissi að myndi þiggja það = betlara

 
Viltu tjá þig?

20. apríl 2007

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Það er búin að vera stórskrítin vika í þessum heimi. Fjöldamorð hér í USA og stórbruni í Reykjavík. Skrítið hvað stundum koma tímar þar sem allt hefur þvílík áhrif á mann.

Þessi vika er búin að vera tilfinningalegur rússibani hjá mér (svo maður sletti góðri ensku). Hluti af því er að ég hef hugsað mikið aftur um 10 ár. Ég veit ekki hvað þeir sem lesa þessi skrif mín þekkja mig vel og hingað til hef ég ekki verið þekkt fyrir að skrifa það sem mér liggur innst á hjarta. Ég ætla hér með að breyta aðeins út af vananum. Dagurinn í dag er dagur sem ég trúði varla að myndi renna í hlað fyrir 10 árum.

Kristín Halla Haraldsdóttir (f. 9. apríl 1981 - d. 20. apríl 1997)

-- Heiðruð sé minning þín --

Fermingarmyndin af Kristínu Höllu, en hún fermdist á 14 ára afmælisdaginn sinn, 9. apríl 1995.

Byrjum á byrjuninni. Ég ólst upp í Mosfellsbænum (eða Mosfellssveit eins og það hét fyrst) og bjó ég þar fyrstu 13 ár ævi minnar.
Kristín Halla til vinstri, ég til hægri - við erum ca 1 og 2 ára gamlar.

Ég hugsa að flestir sem muna eftir mér þaðan (ef þá einhverjir) kveikji fyrst ekki á perunni þegar þeir heyra talað um Rögnu. En þegar minnst er á systurnar, Kristínu og Rögnu þá gæti verið að fleiri átti sig. Ég átti sem sagt tvær systur, Sigga Sóley sem býr hérna í USA og er töluvert eldri en ég og Kristínu Höllu sem var rétt tæpum 19 mánuðum eldri en ég. Kristín Halla lést fyrir nákvæmlega 10 árum í dag, þá rúmlega 16 ára gömul.

Ég hef aldrei áður fest niður á blað hvað ég gekk í gegnum þegar ég missti systur mína. Nokkrum mánuðum eftir að hún lést þá sá ég mikið eftir að hafa ekki skrifað minningargrein um hana. En það var ekki rétti tíminn þá og hefur ekki verið hingað til. Góður vinur sagði hins vegar við mig um daginn að því lengur sem maður ýtir erfiðum hlutum á undan sér því erfiðara verður það að komast yfir hjallann. Í dag þegar 10 ár eru liðin finnst mér loksins vera rétti tímapunkturinn.

Ég á held ég engar minningar fyrir 20. apríl 1997 þar sem systir mín var ekki. Við vorum alltaf saman og sést það kannski best á myndum sem teknar voru af okkur.
Kristín til vinstri, ég til hægri - sjáið þið hæðarmuninn? Ætli við séum ekki ca 11 og 12 ára (giska ég).

Ég hef margoft heyrt frá því sagt að henni var mikið annt um að vernda mig þegar ég var lítil. Svo annt að það þurfti að koma mér í leikgrind til þess að skilja okkur að. En hún lét ekki slíkt smáatriði hindra sig, smá tillhlaup og hún var komin ofan í með mér. Svona eftir á að hyggja þá hef ég í laumi hlegið að því að systir mín kom mér í gegnum fyrstu 9-10 skólaár ævi minnar. Eftir það þurfti ég að byrja að vinna sjálf. Og það er alveg rétt, þegar hún byrjaði í sex ára bekk þá gat ég ekki beðið eftir að hún kæmi heim og kenndi mér það sem hún lærði í skólanum. Við æfðum saman fótbolta, frjálsar, handbolta, fórum saman á leikjanámskeið, lærðum báðar á píanó og ég meira segja "neyddist" til að fara í skólagarðana og á myndlistarnámskeið, því að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að gera eitthvað sem Kristín gerði.
Ég veit ekki hvort þið getið ímyndað ykkur hvernig það er að alast upp og vera aldrei ein og svo allt í einu á svipstundu er maður orðin einkabarn.

Kristín var besta vinkona mín, þó að ég hafi kannski ekki litið það þeim augum þá. Þrátt fyrir það vorum við eins og hvítt og svart. Hún var hávaxin, dökkhærð, tigin í framburði, alltaf róleg, vel skipulögð - held ég hafi aldrei séð herbergið hennar í óreiðu. Ég aftur á móti var alltaf minnst í mínum bekk, ljóshærð framan af aldri, alltaf einhver galsi í mér, óreiðan í hámarki og aldrei skipulögð.
Ég held að vissu leyti vorum við mótvægi við hvora aðra. Kristín var handlagin mjög, elskaði plöntur og blóm og var alltaf eitthvað að stússast í garðinum og seinna meir hafði hún mikinn áhuga á sögu og landfræði ásamt alls konar vísindum. Ég held að þar sé skýringin á því afhverju listahæfileikum mínum, kunnáttu um plöntur alls konar, sögu og landfræði hefur alltaf verið ábóta vant, ég vissi að Kristín vissi og gæti þetta og til hvers þurfti ég þess þá?

Nokkrum mánuðum eftir að systir mín lést þá kom í ljós að hún var með Wilson veiki (e. Wilson's disease google). Hún veiktist sem sagt mjög snögglega og eftir því sem ég best veit þá hefði aldrei verið möguleiki að bjarga henni á þeim tímapunkti, alveg sama hvað hefði verið gert nema fyrir algjöra heppni því eina leiðin var að hún fengi nýja lifur strax. Læknarnir gerðu allt sem þeir gátu en hún lést í sjúkraflugi yfir Noregi á leið til Danmerkur til meðferðar.

Allt þetta gerðist á rúmum degi - frá laugardagskvöldi til sunnudagskvölds. Þegar ég horfi til baka þá sé ég hvern atburð fyrir sig spilast í hægri endursýningu. Næstu vikur á eftir eru í algjörri móðu hins vegar. Á þessum tíma var samt eitt sem ég hugsaði fram og til baka. Hvernig verður hægt að lifa án þess að Kristín sé hérna að styðja við bakið á mér.

Þrátt fyrir miserfið tímabil í mínu lífi þá veit ég að Kristín hefur fylgt mér eftir síðustu 10 árin og stutt við bakið á mér og ég trúi að það muni hún gera í framtíðinni einnig. Það er margt sem ég á eftir að gera á minni ævi og ég veit að ef hún hefði ekki verið mér til stoðar frá því ég fæddist þá væri ég ekki hér þar sem ég er í dag.

Ég veit ég á eftir að hugsa mikið til Kristínar í dag og ef ég væri heima á Íslandi þá myndi ég kíkja að leiðinu hennar. Í gegnum tíðina þá hefur sá staður virkað mjög róandi og hughreystandi á mig. Því langar mig að biðja ykkur, ættingja og vini, sem eru heima á Íslandi að kíkja þangað við tækifæri og skila góðri kveðju frá mér.

Að lokum vil ég enda þetta með ljóði sem ég fékk að velja á sínum tíma og var sungið í jarðarförinni hennar Kristínar Höllu. Alltaf þegar ég heyri þetta lag eða sé gleymérey þá hugsa ég til systur minnar sem var alltaf til staðar þegar ég þurfti á að halda.


Blátt lítið blóm eitt er

Blátt lítið blóm eitt er,
ber nafnið gleymdu’ ei mér.
Væri ég fuglinn frjáls
flygi’ ég til þín.
Svo mína sálu nú
sigraða hefur þú
engu ég unna má
öðru en þér.

Þýsk þjóðvísa




Þann 20 apríl, 2007 07:43, sagði Anonymous Nafnlaus...

Elsku Ragnheiður mín! Ég votta þér dýpstu samúð mína á þessum erfiða degi. Knús og kossar frá klakanum, Helga Björk

 
Þann 20 apríl, 2007 13:40, sagði Anonymous Nafnlaus...

Úff, hvað ég man eftir þessum tíma, Kristín var svo elskuleg og erfitt að skilja að hún væri bara allt í einu farin. Ég votta þér mína dýpstu samúð eins og ég gerði líka fyrir 10 árum síðan og vona þú komist vel í gegnum þennan erfiða dag
Lára

 
Þann 20 apríl, 2007 23:28, sagði Blogger Unknown...

Elsku Ragnheiður!

En hvað þetta var fallega skrifað hjá þér. Þú átt alla okkar samúð.

Bestu kveðjur,

Guðbjört og Árni

 
Þann 21 apríl, 2007 11:26, sagði Anonymous Nafnlaus...

Ég er búin að vera að reyna að skrifa álit á síðuna en það hefur ekki gengið í nokkra daga, vonandi tekst það núna.

Ég ætlaði að segja að ég er einmitt búinn að hugsa mikið um þetta síðustu daga. Bæði á afmælisdaginn hennar og í gær og dagana á undan.

Ég man eftir þessu öllu sem þú talar um og ég hugsa oft til hennar með söknuði. Ég efast ekki um að Guð þurfti á Kristínu Höllu að halda svona snemma vegna þess hve stórkostleg hún var, klár, gáfuð, góð og skilningsrík og hún gegnir vafalaust mikilvægu starfi á öðrum stað.

Ég skal fara með kveðjuna fyrir þig.

 
Þann 22 apríl, 2007 12:04, sagði Blogger sirrygella...

Hæ Ragna, langaði bara að kasta á þig kveðju og votta þér samúð mína. Tíminn líður hratt, skrýtið að það séu liðin tíu ár. Ég segi eins og Lára, man hvað þetta var skrýtið og erfitt að skilja.
Hafðu það gott.

 
Viltu tjá þig?

17. apríl 2007

Upsetting things happening

English version below.

Hræðilegt þetta atvik í Virginíu í gær.
Ég ætlaði að senda út boð um partí á föstudaginn en eftir að hafa horft á klukkutíma umfjöllun um skotárásina á NBC þar sem var talað um "The Massacre at Virginia Tech" með þungum hljóm þá var ég engan veginn í stuði til þess.

Þar fyrir utan er dagsetningin kannski ekki alveg sú besta. 20. apríl, þá verða liðin 8 ár frá Columbine skotárásinni.

Ég held reyndar að 20. apríl sé einn af þeim dögum sem ég kann verst við - 10 ár í ár...

Reynum að breyta því með þessu partí.



It was awful what happened at Virginia Tech yesterday morning.
I was going to send out invites for a party on Friday but after sitting infront of the tv whatching a dateline version of the shootings, "The Massacre at Virginia Tech", then I was so not in the mood for writing anything nice.

Besides the date is not really the best, April 20th. That day there will be 8 years since the Columbine shootings.

I actually think that April 20th is one of the days I like the worst if any... but I guess it's just bad memories.

Let's try to change that with this party!

Þann 17 apríl, 2007 17:07, sagði Blogger Sigurður Smári Sigurðsson...

já þetta er alveg hræðilegt - maður skilur engan veginn hvernig svona margir gátu látist...

 
Viltu tjá þig?

15. apríl 2007

Afsakið hlé

As my English speaking friends probably know, I made it back from my trip to Vienna/Iceland. So I'm just telling my people back in Iceland about what I've been doing with myself the past 4 weeks. Hopefully I'll be updating more frequently from now on.

Vildi bara láta ykkur vita að ég hafi komist til Vínar og aftur til baka.
Hef ekki ennþá nennta að skrifa niður ferðasöguna en í stuttu máli sagt þá var mjög gaman. Takk fyrir frábærar móttökur Helga og Siggi. Eins og ég hef sagt margoft - ég mun minnast alls átsins í Vínarborg. Hvernig gengur annars aðhaldið?

Búið að vera nóg að gera frá því ég kom til baka. Bæði vinna í verkefnum, gera heimaverkefni, undirbúa kennslu oþh. Fyrstu helgina eftir að ég kom var ég á fullu að vinna í verkefni sem ég þurfti að mæta á fund útaf á mánudagsmorgun kl. 9. Lítið um svefn þá helgi. Næstu tókst mér að eyða í ferð til Princeton að heimsækja Völlu og Geir, varð að sjálfsögðu að kíkja á gradstúdentabarinn þar :). Ætlaði svo að vera komin tímanlega til baka aftur á sunnudeginum svo ég gæti eitthvað unnið en endaði á að vera hjá Petu frænku restina af deginum. Svo kom páskahelgin þá fór ég til systur minnar að sjálfsögðu enda voru mamma og pabbi í heimsókn (eru að fara til Íslands aftur í dag). Þau komu einmitt í heimsókn í gær og núna er ég að reyna að rífa sjálfa mig upp til að fara á skrifstofuna því ég verð að klára bandarísku skattana.

Þess á milli hef ég farið á opnun á listaverkasýningu niðri í Chelsea, ég mæli með að kíkja bara í Chelsea, alltaf eitthvað að gerast þar. Farið einu sinni í bíó. Eina helgina kom bróðir Meha í heimsókn út af e-u Model UN dæmi þ.a. við prófuðum Eþópískan stað með honum. Meha var að skipuleggja árlega ráðstefnu hjá deildinni sinni þ.a. tveir af fyrirlesurunum fengu að gista hjá okkur í tvær nætur. Hitti einmitt einn Svía í því dæmi. Svíar eru alls staðar Ragnhildur ;)

Þetta er svona það helsta sem ég man eftir. Greinilegt að ég má ekki sleppa því að blogga svona lengi aftur. Maður algjörlega gleymir því hvað maður er búinn að vera að gera.

Þannig að í sambandi við spurninguna hvað hafi komið fyrir mig, þá var það ekki númer 1, ekki númer 2 þannig að það hlýtur að hafa verið númer 3 er það ekki?

Þann 15 apríl, 2007 16:46, sagði Anonymous Nafnlaus...

Jú, það er gott að hafa þetta á hreinu bara. :)

 
Þann 15 apríl, 2007 18:38, sagði Blogger Sigurður Smári Sigurðsson...

Gaman að fá loksins blogg :)

 
Þann 15 apríl, 2007 18:54, sagði Anonymous Nafnlaus...

Við þökkum fyrir heimsóknina. Það var ótrúlega gaman að fá þig :D. Aðhaldið gekk ágætlega til að byrja með þar sem að við vorum komin með algjört ógeð af mat eftir maraþonátið. En við erum svo fljót að gleyma þ.a. strax og við komum heim til Íslands hófst maraþon nr. 2 og hefur það staðið þar til núna. Ég er farin að hlakka til að komast til Vínar í pásu :D.

 
Þann 16 apríl, 2007 03:39, sagði Anonymous Nafnlaus...

Ah, gott að sjá hér lífsmark! En gott hjá þér samt að taka pásu - maður á að njóta ferðalaga og ekkert tölvast á meðan ;P Sniðugt líka að Tékki sitji við hliðina á þér - hann getur kannski sagt okkur hvort þetta sé leirburður og klám eða eitthvert stórvirki tékkneskra ljóðbókmennta :D

 
Þann 17 apríl, 2007 05:36, sagði Anonymous Nafnlaus...

Hjartansþakkir fyrir þýðinguna! Gott til þess að vita að þetta hafi svona fallega merkingu - garðurinn þar sem þetta stóð var líka mjög fallegur og greinilega í uppáhaldi hjá ungu fólki með barnavagna, eldriborgurum, útigangsfólki og rónum borgarinnar til að sóla sig svolítið.

 
Þann 17 apríl, 2007 12:16, sagði Blogger Ragna...

frábært!!!

fyrir þá sem ekki fatta þá er um að gera að kíkja á heimsíðuna hennar Bjarnheiðar. Mæli með blogginu hennar ;)

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)