Ragna í New York

30. nóvember 2005

Ísland er lítið

Var bent á þessa grein fyrir nokkru. Nokkurs konar baggalútur kananna.

Þann 01 desember, 2005 16:59, sagði Blogger Valla...

Þetta er frekar fyndið :)

 
Viltu tjá þig?

26. nóvember 2005

Pakksödd

Varð að skrifa hérna inn eftir að hafa lesið færsluna hans Stebba. Þetta minnti mig á að hún Meha, sem býr með mér, á marga mjög áhugaverða vini. Ein er einkaspæjari og annar er atvinnupókerspilari. Stelpan sem vinnur sem einkaspæjari sagði mér að þetta starf sameinaði það tvennt sem henni finnst skemmtilegast, komast að hlutum um fólk og vera á netinu. Sagði að það væri ótrúlegt um hvað fólk bloggaði. Strákurinn sem er atvinnupókerspilari spilar póker á netinu. Hann spilar svona 8 tíma á dag og ræður vinnutímanum nokkuð sjálfur. Hann býr víst á ágætisstað í New York borg og lifir bara ágætlega. Enda er galdurinn við póker ekki sá að vera geðveikt góður heldur bara að vera betri en þeir sem þú spilar við :) Svo þekki ég reyndar annan pókerspilara, hann Chai skólabróðir minn hérna spilar amk einn leik á dag. Gamli yfirmaðurinn hans frá Kína borgar honum svo 10-20 dollara á klst. fyrir að fylgjast með sér spila á netinu og gefa sér ráð. Held að Chai hafi búið til excel skjal með líkunum yfir ákveðnar hendur ...hmmm líkindafræði einhver?

Annars er ég ennþá hjá systur minni. Það mættu tólf manns í mat á þakkargjörðarhátíðina. Meira að segja Valla mætti úr stórborginni Philadelphíu. Við Harold og krakkarnir sóttum hana á lestarstöðina þar sem að þegar ég bað um bílinn til að sækja hana þá var mér tilkynnt að það væri betra að fleiri færu að sækja hana á þessa lestarstöð. Skildi það mjög vel þegar við komum á stöðina. Þetta var svo skemmtilegur dagur bara þar sem við bjuggum til servíettuhringi, eftir að Stefán hafði hannað þá og spiluðum foosball. Okkur Íslendingunum (Bragi, Valla og ég) tókst að vinna þau þaulreyndu (Siggu og Harold) þó ég verði nú að viðurkenna að eftir þriggja daga æfingu þá eru þau þaulreyndu komin í form á ný. Ef ég man nefnilega rétt þá var þetta foosball borð keypt árið 1997 og áður en krakkarnir komu í heiminn þá var það sko mikið notað. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að reyna að snúa handföngunum eins hratt og maður getur. Sumir misskilja alveg þennan leik. Þegar koma að kvöldmat þá komumst við varla fyrir við borðið fyrir kræsingum og að sjálfsögðu fór systir mín hamförum í bökunum í eftirrétt. Fengum eplaböku, graskersböku og pekanhnetuböku. Reyndar saga að segja frá því hvernig náð var í pekanhnetubökuna með klækjum, held það sé saga sem getur beðið seinni tíma en við getum orðað það svo að það hafi kannski ekki alveg verið í anda þakkargjarðarhátíðarinnar eða hvað?
Um kvöldið var Valla svo heppin að fá far til baka til Philly. Vonum að hún hafi komist á leiðarenda og sé að skemmta sér í Boston núna ;)

Í gær var svo "Black Friday" eins og flestir kanar vita. Þetta er mesti verslunardagurinn á hverju ári í Bandaríkjunum og brjálað að gera alls staðar. Ég og Bragi gátum ekki verið þekkt fyrir að vera í Bandaríkjunum þennan dag og ekki versla, svo við fórum í Kohls og gerðum góð kaup. Ég keypti mér brúna/bleika skó, hvíta kasmírpeysu, grænyrjótta Havana Jack's Cafe peysu og flannel jólanáttföt. Borgaði 100 dollara fyrir þetta allt saman (og þá er ekki talið með 20 dollara kúponinn sem fylgdi með og maður getur notað sem borgun upp í hvað sem er frá og með morgundeginum). Ég held að bara skórnir séu dýrarir en þetta heima.

Loks vil ég minnast á að ég kem heim á aðfangadagsmorgun og mun vera í um 3 vikur á klakanum. Endilega látið mig vita ef það er eitthvað sem vantar frá landi tækifæranna, annars veit ég samt ekki hversu mikið maður getur tekið með sér - var að heyra að Flugleiðir sé eitthvað búið að minnka farangursmagnið sem má taka með. En já endilega hafið samband.

Þann 01 desember, 2005 17:00, sagði Blogger Valla...

Þetta var frábær dagur og ég þakka kærlega fyrir mig! Servéttuhringirnir myndu örugglega rokseljast ef við færum með þá á markað ;)

 
Viltu tjá þig?

23. nóvember 2005

Bleiki pardusinn

Ákvað að setja eitthvað smá hingað inn eftir að hafa fengið kvörtun ;)

Afmælið mitt gekk vel - flest allir mættu og var stemmningin góð. Held það sé langt síðan ég hef fengið svona mikið af gjöfum, 2,bækur, kertastjaki, þrjár vínflöskur, gestaþraut, expresso kaffikönnu, tösku og spiladós.

Spiladósin varð að svolítilli ráðgátu sem leystist ekki fyrr en 5 dögum eftir afmælið mitt. Ég nefnilega vaknaði daginn eftir og á skrifborðinu mínu sat þessi spiladós og ég hafði ekki hugmynd um hvaðan hún kom. Það skuggalegasta var að hún spilar bleika pardusinn - lag sem ég hafði spilað síendurtekið á píanóið hjá systur minni helgina áður. Kristín Halla, systir mín, átti svo nákvæmlega eins spiladós sem spilar Für Elise. Ég held að flestir sem þekki mig vel viti að ég trúi sko ekki á neitt yfirnáttúrulegt en þegar þarna var komið kannaðist enginn við spiladósina og það var farið að renna á mig tvær grímur.

Kom svo í ljós að Krishnan vinur Meha (hefur PhD í stærðfræði, kennir við community háskóla í borginni) stóð að baki þessu. Skilst að hann hafi gaman að því að gera svona hluti og hafði hann ábyggilega gaman af ráðgátunni sem hlaust af þessu.

En já nóg af ráðgátum, á morgun er ég aftur á leið til Siggu til að eyða Þakkargjarðarhátíðinni hjá henni. Bragi er víst mættur á svæðið - vonandi með nóg af harðfiski handa mér fyrir prófatímann.

Svo lítur út fyrir 6-X reunion hjá mér 17. desember. Ef fleiri X-arar eiga leið um þann dag þá endilega hafið samband ;) Finnst samt að 3/11 hluti bekkjarins sé bara slatta gott hlutfall.

Þann 24 nóvember, 2005 08:06, sagði Anonymous Nafnlaus...

Hæ Ragna! Varð bara að tjá mig um bleika pardusinn :)
Þú og Kristín gáfuð mér nefninlega bleikapardusblóm einu sinni :) blómið er löngu dautt en á á ennþá blómapottinn :)
Svo er ég einmitt að æfa bleika pardusinn með svaka bandi þessa dagana fyrir ákveðið leyniatriðið ;) eintómar tilviljanir? ;)

Guðrún Rúts

ps: gaman að lesa bloggið þitt :)

 
Þann 24 nóvember, 2005 09:46, sagði Blogger Valla...

Ég held að þetta reunion muni vera lengi í minnum haft :) Þetta leggst vel í mig.

 
Þann 24 nóvember, 2005 13:21, sagði Anonymous Nafnlaus...

Þetta er alveg eins spiladós og kári á! og hún spilar sama lagið! Merkilegt

 
Þann 24 nóvember, 2005 20:15, sagði Blogger Ragna...

Gaman að heyra í gömlum vinum ;)
Þú mátt endilega senda mér meil - væri gaman að heyra í þér ;)

ps. Valla - takk fyrir daginn ;)

 
Þann 25 nóvember, 2005 14:07, sagði Anonymous Nafnlaus...

Hæ Ragna

Kemurðu ekki heim um jólin?

Kveðja; Kristín Ásta.

 
Þann 25 nóvember, 2005 20:51, sagði Blogger Ragna...

Jú ég flýg heim 23. og verð því komin til Íslands 24. desember.

 
Viltu tjá þig?

19. nóvember 2005

Kalt

Var að skoða dashbordið á tölvunni minni (í því forriti sér maður fullt af sniðugum upplýsingum) tók eftir því að hitastigið í Reykjavík er 8 gráður en í New York er hitinn 1 gráða. Held barasta að þetta sé í fyrsta sinn sem ég hef tekið eftir slíku frá því ég kom hingað. (við skulum samt taka það fram að kl. er 8 að morgni til í Reykjavík en um 3 að nóttu til í New York) Ég er amk fegin á meðan hitinn fer ekki niður fyrir frostmark.

Þann 21 nóvember, 2005 06:21, sagði Anonymous Nafnlaus...

það verður ábyggilega miklu kaldara hjá þér í janúar og febrúar en hérna

 
Viltu tjá þig?

11. nóvember 2005

Afmæli og fleira

Jæja ég er á lífi - það sem gerðist er uþb atriði númer þrjú hér efst á síðunni ;) - of mikið að gera.

Fyrst langar mig að þakka öllum kærlega fyrir sem sendu mér kveðju og/eða hringdu á afmælisdaginn minn. Það var alveg frábært að heyra í svona mörgum og ég bara verð að afsaka það að hafa ekki svarað sérstaklega til baka - ég einhvern veginn hef bara ekki haft tíma í það. Vona að þetta nægi - ef ekki þá bara senda mér annað bréf og ég skal svara því ;)

Í tilefni af afmælinu mínu og lokum miðsannarprófanna þá verður svo partí hérna heima hjá mér í kvöld. Ef einhver sem les þetta er í New York og langar að mæta þá endilega komið við. Þetta byrjar kl. 9 í kvöld - sjá heimilisfang hér til hliðar.

Það er mikið búið að gera síðan ég skrifaði síðast. Búin að fara í tvö miðsannarpróf og skila uþb. 4 stórum heimaverkefnum.

Síðustu helgi var haustfrí, þ.e. ég var í fríi mánudag og þriðjudag. Ég ákvað að notfæra mér þetta frí og skrapp til Siggu Sóleyjar. Ég tók Greyhound rútu til Wilmington á föstudag og gekk það bara furðuvel - tók rúma tvo tíma að komast þetta. Samt dálítið fyndið hvernig svona rútusystem virkar hérna. Ég var komin til Wilmington um hádegið og lék mér við Stefán þar til aðrir komu heim. (Stefán fékk að fara fyrr heim úr skólanum til að vera með mér). Um kvöldið fór ég í verslunarferð með Siggu, Harold og Kristínu Eddu og tókst loksins að versla mér peysur og nýtt belti. Á laugardeginum fórum við Sigga og krakkarnir í lautarferð. Fórum í mjög skemmtilegan garð rétt utan við Wilmington. Haustlitirnir voru alveg æðislegir - þarna var lítill lækur og við hann sat kona sem var að mála - alveg eins og klippt úr einhverri bíómynd. Seinna um kvöldið var mér svo tilkynnt að ég væri að fara í afmælisveislu með Siggu hjá samstarfsmanni hennar. Það var mjög gaman og mjög gott að borða. Sunnudagurinn fór svo í meiri verslunarleiðangur með Siggu , í þetta sinn keypti ég þessa fínu vetrarkápu ásamt tveimur húfum/höttum og einhverju fleiru. Á mánudeginum var svo matarboð í tilefni þess að ég varð 23 ára núna á þriðjudaginn (8.nóv). Voða gaman og langt síðan ég hef fengið köku með kertum til að blása á. Ég fékk líka vægt áfall sama dag. Sigga og Harold fá hreingerningarkonu aðra hverja viku og hún kom á mánudeginum. Haldið þið ekki að hún hafi brotið saman öllu óhreinu fötin mín sem lágu á stólnum inni í gestaherberginu og hreinsað hárin úr hárbustanum mínum!!! Ég skammaðist mín alveg hrikalega og konan er komin 8 mánuði á leið. Á afmælisdaginn sjálfan var ég nú bara ein heima hjá Siggu að læra fyrir próf sem ég tók daginn eftir ásamt því að sinna annarri vinnu sem ég átti eftir. Svo tók ég loksins lestina um kvöldið til New York.

Það er svo búið að vera brjálað frá því ég kom aftur því prófið var svona tímapróf/taka heim próf þ.e. maður hafði 24 klst til að klára prófið heima eftir að hafa reynt við það í 1 og hálfan tíma í skólanum. (50% kredit fyrir það sem maður gerir heima). Síðan var verkefnaskil og er ég loksins búin að því.

Annars vona ég bara að kvöldið verði ánægjulegt - bið að heilsa öllum á Íslandi.

Þann 11 nóvember, 2005 17:12, sagði Anonymous Nafnlaus...

Til hamingju með afmælið.
Kveðja; Kristín Á.

 
Þann 13 nóvember, 2005 15:58, sagði Blogger Valla...

Þegar ég las Stefán hélt ég þú meintir Stebba okkar og hló því mjög hátt þegar ég las: stefán fékk að fara fyrr heim úr skólanum... hélt þeir væru orðnir eitthvað skrítnir þarna í Cornell

 
Þann 15 nóvember, 2005 05:11, sagði Anonymous Nafnlaus...

múha! :D þetta er fyndnasti mislestur sem ég hef heyrt Valla! :D
hvað þýðir þetta 50% kredit? skil ekki alveg...

 
Þann 15 nóvember, 2005 10:26, sagði Blogger Ragna...

sko segjum t.d. að maður gerir hálft prófið í tímanum þá fær maður sko 5 fyrir þann hluta ekki satt? ef maður klárar svo hinn helminginn heima þá fær maður 50% af þeirri fimmu eða 2,5 fyrir þann hluta ;)

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)