Pakksödd
Varð að skrifa hérna inn eftir að hafa lesið færsluna hans Stebba. Þetta minnti mig á að hún Meha, sem býr með mér, á marga mjög áhugaverða vini. Ein er einkaspæjari og annar er atvinnupókerspilari. Stelpan sem vinnur sem einkaspæjari sagði mér að þetta starf sameinaði það tvennt sem henni finnst skemmtilegast, komast að hlutum um fólk og vera á netinu. Sagði að það væri ótrúlegt um hvað fólk bloggaði. Strákurinn sem er atvinnupókerspilari spilar póker á netinu. Hann spilar svona 8 tíma á dag og ræður vinnutímanum nokkuð sjálfur. Hann býr víst á ágætisstað í New York borg og lifir bara ágætlega. Enda er galdurinn við póker ekki sá að vera geðveikt góður heldur bara að vera betri en þeir sem þú spilar við :) Svo þekki ég reyndar annan pókerspilara, hann Chai skólabróðir minn hérna spilar amk einn leik á dag. Gamli yfirmaðurinn hans frá Kína borgar honum svo 10-20 dollara á klst. fyrir að fylgjast með sér spila á netinu og gefa sér ráð. Held að Chai hafi búið til excel skjal með líkunum yfir ákveðnar hendur ...hmmm líkindafræði einhver?
Annars er ég ennþá hjá systur minni. Það mættu tólf manns í mat á þakkargjörðarhátíðina. Meira að segja Valla mætti úr stórborginni Philadelphíu. Við Harold og krakkarnir sóttum hana á lestarstöðina þar sem að þegar ég bað um bílinn til að sækja hana þá var mér tilkynnt að það væri betra að fleiri færu að sækja hana á þessa lestarstöð. Skildi það mjög vel þegar við komum á stöðina. Þetta var svo skemmtilegur dagur bara þar sem við bjuggum til servíettuhringi, eftir að Stefán hafði hannað þá og spiluðum foosball. Okkur Íslendingunum (Bragi, Valla og ég) tókst að vinna þau þaulreyndu (Siggu og Harold) þó ég verði nú að viðurkenna að eftir þriggja daga æfingu þá eru þau þaulreyndu komin í form á ný. Ef ég man nefnilega rétt þá var þetta foosball borð keypt árið 1997 og áður en krakkarnir komu í heiminn þá var það sko mikið notað. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að reyna að snúa handföngunum eins hratt og maður getur. Sumir misskilja alveg þennan leik. Þegar koma að kvöldmat þá komumst við varla fyrir við borðið fyrir kræsingum og að sjálfsögðu fór systir mín hamförum í bökunum í eftirrétt. Fengum eplaböku, graskersböku og pekanhnetuböku. Reyndar saga að segja frá því hvernig náð var í pekanhnetubökuna með klækjum, held það sé saga sem getur beðið seinni tíma en við getum orðað það svo að það hafi kannski ekki alveg verið í anda þakkargjarðarhátíðarinnar eða hvað?
Um kvöldið var Valla svo heppin að fá far til baka til Philly. Vonum að hún hafi komist á leiðarenda og sé að skemmta sér í Boston núna ;)
Í gær var svo "Black Friday" eins og flestir kanar vita. Þetta er mesti verslunardagurinn á hverju ári í Bandaríkjunum og brjálað að gera alls staðar. Ég og Bragi gátum ekki verið þekkt fyrir að vera í Bandaríkjunum þennan dag og ekki versla, svo við fórum í Kohls og gerðum góð kaup. Ég keypti mér brúna/bleika skó, hvíta kasmírpeysu, grænyrjótta Havana Jack's Cafe peysu og flannel jólanáttföt. Borgaði 100 dollara fyrir þetta allt saman (og þá er ekki talið með 20 dollara kúponinn sem fylgdi með og maður getur notað sem borgun upp í hvað sem er frá og með morgundeginum). Ég held að bara skórnir séu dýrarir en þetta heima.
Loks vil ég minnast á að ég kem heim á aðfangadagsmorgun og mun vera í um 3 vikur á klakanum. Endilega látið mig vita ef það er eitthvað sem vantar frá landi tækifæranna, annars veit ég samt ekki hversu mikið maður getur tekið með sér - var að heyra að Flugleiðir sé eitthvað búið að minnka farangursmagnið sem má taka með. En já endilega hafið samband.
Þetta var frábær dagur og ég þakka kærlega fyrir mig! Servéttuhringirnir myndu örugglega rokseljast ef við færum með þá á markað ;)