Spiderwars
Dagskráin er búin að vera ágætlega full síðustu daga. Á laugardaginn eftir að hafa komið til systur minnar fór dagurinn í að horfa á fótboltaleiki og á milli þess hjálpaði ég aðeins til við að skrúfa borð í sundur og saman. Er ekki frá því að ég hafi fengið smá sigg á hægri höndina. Á sunnudeginum fórum við svo fimm í Dutch Wonderland í Lancaster Pensylavaniu. Þetta er skemmtigarður sem beinir athygli sinni að yngri börnum og þar af leiðandi var Stefán nógu stór til að fara í öll tækin. Við fórum öll í Gondóla-siglingu og svo fórum við í hringekju, lestarferð, trjábol sem fer eftir vatnsrennibraut, klessubíla og fleira. Við Stefán enduðum svo á að fara í risastóra rennibraut og svo að sjálfsögðu rússibana. Allt mjög skemmtilegt. Einnig tókst okkur að sjá sýningu um prinsessu og froskaprinsa og enduðum ég, Sigga og Stefán á því að vera rennandiblaut. Kristín og Harold höfðu fært sig upp á sjöunda bekk því þar átti fólk að vera öruggt, að sjálfsögðu endaði Kristín á því að fá gusu yfir sig líka. Annars er Lancaster heimili hins fræga Amish fólks og á leiðinni heim fórum við framúr fleiri hestvögnum en tölu varð komið á. Á mánudeginum átti ég "date" með Kristínu Eddu meðan allir hinir fóru á vikulegan mánudags bridge-leik. Kristínu tókst að sjálfsögðu að heilla alla í mollinu og fékk sleikjó í einni búðinni. Held hún hafi samt verið hrifnust af Victorias Secret, það er nefnilega allt svo bleikt þar. Í gær fórum við í dýragarðinn í Philadelphiu fyrir hádegi. Meðal afreka var að sjá þegar ísbjörnunum var hleypt út og sá fyrri labbaði beint upp á klett og byrjaði að pissa ofan í vatnið. Við horfðum svo á Þýskaland-Ítalía. Ótrúlegt hvað sumum tekst alltaf að plata mann, láta mann halda að þeir haldi með Þýskalandi og svo þegar tvær mínútur eru eftir af framlengingunni þá kemur í ljós að þeir héldu með Ítalíu eftir allt saman... Annars var að sjálfsögðu fjórði júlí í gær og eftir að hafa borðað grillaðar pylsur fórum við á tónleika hjá lúðrasveit sem einn nágranni systur minnar er í. Tónleikarnir voru í Marcus Hook (Valla manstu?) og það sem mér fannst eiginlega merkilegast var að þetta voru aðallega hvítt fólk og svona tveir þriðju yfir 75 ára. Annars kom svo í ljós í hléinu að afgangurinn var allur tengdur lúðrasveitinni.... Annars sáum við eitthvað af flugeldum í gær, okkur tókst samt ekki að fara á flugeldasýninguna niðri í bæ þar sem engin leið var að leggja bílnum og krakkarnir hálfsofnaðir. Fyrirsögnin er einmitt orðið sem Kristin Edda notar yfir flugelda (Fireworks->Spiderwars, íslenska: köngulóarstríð).
Í dag fór ég svo í verslunarleiðangur og tókst m.a. að kaupa brjóstahaldara frá Victoria Secret á 15 dollara - geri aðrir betur.
Svo horfði ég að sjálfsögðu á Rockstar: Supernova í kvöld. Ég gegndi minni skyldu og kaus 12 sinnum, Sigga kaus svona 6 sinnum og ég veit ekki hversu mörgum sinnum Harold kaus ;) Á morgun á ég svo annan frídag er að pæla í að kíkja kannski í bíó og í mollið aftur. Má samt eiginlega ekki kaupa neitt - er búin að kaupa nógu mikið fyrir.
Annars held ég heim á leið á föstudaginn. Flýg frá New York til Keflavíkur og lendi um morguninn 8. júlí. Silvía, sú sem þrífur hjá systur minni kemur á morgun - verð víst að fara að fela hárburstann minn...
Heim til lands ísa og elda?
Síðast þegar ég vissi þá var Keflavík á Íslandi ;)
Vá ég hef alveg misst af þessari setningu NY-KEF! En gaman gaman! Hlakka til að hitta þig, er það ekki kaffihús í vikunni?
Þetta hefur verið góð helgi hjá þér :)
Ragna ef þú hefur lausa stund þá máttu alveg endilega kíkja í heimsókn til mín á meðan þú ert á landinu. Ég er í sumarfríi svo ég er mikið heima þessa dagana. :)