Ragna í New York

25. september 2007

Sólskinsfylkið

Hér kemur loksins ferðasagan frá Flórída. Þetta er búið að taka tvær vikur - með hléum - að skrifa þetta. Ég lagði af stað mánudaginn 27. ágúst 2007 og kom til baka sunnudaginn 2. september 2007.

Ég fór sem sagt í 6 daga ferðalag til að heimsækja Guðbjörtu og Árna

Flugið var afskaplega þægilegt - eitt 45 mínútna stopp en flugtíminn var samtals um 3 tímar. Ég lenti í Gainesville rétt fyrir miðnætti og mættu skötuhjúinn hress til að sækja mig. Eftir misheppnaðar tilraunir til að finna eitthvað að borða (hverjum hefði dottið í hug að 24h McDonald's væri lokaður í 45 mínútur um miðja nótt) þá enduðum við á miðnætursnarli heima hjá Guðbjörtu og Árna.
Þau voru nýflutt í þessa íbúð og er hún bara mjög fín. Stórir gluggar í stofunni þannig að íbúðin verður björt og fín á daginn. Svo eru þau líka með þessa fínu sundlaug sem er styttra að labba út í frá íbúðinni þeirra heldur en frá búningsklefunum í Laugardagslauginni.

IMG_0559.JPG

Froskurinn í sundlauginni - Guðbjört fylgist með frá bakkanum.
Við náðum á endanum að bjarga froskinum.


Fyrsta daginn fórum við í Busch Gardens Africa. Þetta er alveg æðislegur rússibanagarður í Tampa, FL. Fyrir utan rússibana þá er líka safarídýragarður inni í garðinum og gat maður farið í safaríjeppaferðir. Það sem er minnistæðast er samt SheiKra rússibaninn. Þetta er gólflaus rússibani, þrjár raðir með átta sætum í hverri röð. Maður byrjar á að fara rólega upp og svo tekur maður U-beygju og þá kemur 90° fall. Það sem meira er þá fer maður ekki strax í fallið heldur fær maður að bíða kjurr í fimm sekúndur í horninu sjálfu (með gott útsýni á því sem maður er framundan). Einn besti rússibaninn sem ég hef farið í.

IMG_0569.JPG

SheiKra - ef vel er að gáð má sjá eina lestina næstum því við staðinn þar sem 5 sekúnda stoppið er.

Daginn eftir þurfti Guðbjört að mæta í skólann. Við Árni hittum hana svo á kampus í hádeginu og biðum svo á bókasafninu eftir að hún kláraði eftir hádegi. Bókasafnið er vel á minnst mjög flott og alveg frábær aðstaða bæði les og tölvuver. En já eftir skólann hjá Guðbjörtu kíktum við á fiðrildasafnið sem er á kampus þar sem ég tók fullt af myndum. Hér að neðan er ein sem mér finnst flott.

IMG_0612.JPG

Þið getið séð fleiri myndir á myndasíðunni minni og þar vil ég sérstaklega nefna gula fiðrildið sem ætlaði að setjast að á handleggnum mínum . Ég álasa því svo sem ekki þar sem það var víst bara 2 klst gamalt. Þessir óvitar...

Um kvöldið fórum við svo í afmælismatarboð hjá Gaiu vinkonu Guðbjartar. Enduðum það kvöld með að spila e-s konar lestarspil um Evrópu sem var mjög skemmtilegt en ég grúttapaði. Er greinilega alveg komin úr æfingu í borðspilum.

IMG_0698.JPG

Guðbjört að klára holu 6 í frisbee golfi.


Daginn eftir fórum við að Lake Walburg sem er vatn þar sem er frábærar aðstæður til alls konar íþróttaiðkunar - bæði á vatni og landi. Fyrst fórum við þrjú út á kanó til að leita að krókódílum en þeir létu ekki sjá sig. Eftir það fórum við í frisbee golf sem er nokkurs konar golf en með frisbee. Í staðinn fyrir að slá bolta með kylfu ofan í holu þá hendir maður frisbee ofan í járnnet. Við hættum samt á 7. holu eftir að heimasæturnar fóru að gera allverulega var við sig.

IMG_0711.JPG

Ein af heimasætunum...

Eftir þetta brunuðum við til Gainesville aftur þar sem Guðbjört þurfti að mæta í fyrirlestur. Um kvöldið tók Guðbjört sig til og tók mig með í salsa tíma. Þetta var ekki venjulegt salsa heldur það sem er kallað casino-style salsa. Þar ertu ekki mein ákveðinn dansherra heldur dansarðu við alla herrana. Það var svo skemmtilegt að ég er að pæla í að skella mér í salsatíma hérna í stórborginni í október.

Á föstudeginum fékk ég að sofa út á meðan Guðbjört fór í tíma og þau Árni fóru að vesenast í ökuskírteinismálum hjá sér. Svo var planið að ég myndi labba á kampus rétt fyrir hádegi(svona hálftíma labb) og hitta Guðbjörtu og mæta í einn fyrirlestur með henni. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég var komin á miðjan kampus þá steinvilltist ég og það tók mig sléttan hálftíma að labba þessa 5 mínútna leið sem ég átti eftir. Þeir sem þekkja mig vita að ég á frekar erfitt með að villast - amk alvarlega. Þannig missti ég af tíma með Guðbjörtu - mætti nefnilega 5 mínútum eftir að tíminn byrjaði. Eftir tíma tókum við strætó heim. Talandi um strætó þá er ókeypis fyrir nemendur hjá UF í strætó. Aðrir nemar þurfa að borga 50 cent. Í eitt skiptið sem ég ætlaði að borga þá fékk ég fyrirlestur hjá glottandi strætóbílstjóra að þetta væri strætó á háskólasvæðinu og þar þyrfti ekkert að borga þó maður "gleymdi" kortinu... En já þegar heim var komið skelltum við Guðbjört okkur í tennis. Það var mjög hressandi þrátt fyrir að getan á hinum 7 völlunum hafi verið uhum töluvert meiri ;)

Kíktum svo um kvöldið til Mereia og Alex, vinafólks Guðbjartar og Árna. Það kvöld var ákveðið að þau myndu skella sér með okkur daginn eftir til Clearwater strandarinnar sem er milli Tampa og St. Petersburg á Flórída. Þetta var þriggja tíma keyrsla en við skemmtum okkur ágætlega á ströndinni eftir ævintýralegan brunch á IHOP.

IMG_0745.JPG

Clearwater ströndin.

Ströndin var mjög fín - ein sú besta og hreinasta sem ég hef komið á. Um fjögurleytið uppgötvuðum við að ef við ætluðum í höfrungaskoðunarferð í St. Petersburg þá þyrftum við að koma okkur af stað. Með hjálp símans míns og eftir nokkur símtöl við skipstjórann þá náðum við að komast á höfnina nákvæmlega klukkan 5. Þá tók við eins og hálfs tíma sigling þar sem við sáum fullt af höfrungum og stórum flottum húsum. Því miður náði ég engum góðum myndum af höfrungunum þrátt fyrir að ég gerði mitt besta (100+ myndir). Það besta má sjá á myndasíðunni.

IMG_0935.JPG

Í höfrungaferðinni. Réttsælis, Alex, ég, Guðbjört, Árni og Mereia.


IMG_0942.JPG

Eitt risahúsanna.

Um kvöldið ákváðum við að stoppa í Tampa til að borða. Með hjálp símans míns, enn og aftur, fundum við kínverskan stað (eftir að Alex og Mereia stungu upp á honum) sem heitir P.F. Chang's. Það var reyndar klukkutíma bið eftir borði en þar sem staðurinn var í verslunarmiðstöð fórum við bara á búðarráp. Maturinn reyndist svo æðislega góður þótt Guðbjört muni seint fá sér naut (*hóst* chili *hóst*) aftur.

Við komum frekar seint til baka og dáist ég enn hversu auðveldlega Árna og Guðbjörtu tókst að halda hvort öðru vakandi til að keyra heim. Við hin í aftursætinu duttum strax útaf.

Daginn eftir átti ég svo flug heim um miðjan dag (á sunnudegi). Um morguninn kíkti ég samt með Guðbjörtu og Árna til Fanning Springs þar sem allt verkfræðiliðið úr skólanum hennar var saman komið. Þar er náttúruleg lind þar sem hægt er að synda og stinga sér ofan í. Því miður gat ég ekki verið lengi og skutlaði Guðbjört mér til baka aftur til að ná í töskuna mína og fara með mig út á flugvöll. Áður fórum við samt á Stake n Shake - hamborgarabúllu Gainesville bæjar þar sem hún fullvissaði mig um að Þröstur bróðir hennar yrði ekki sáttur ef ég fengi ekki að smakka bestu borgarana í Gainesville (og besta mjólkurhristinginn.)

Allt í allt var þetta æðislega skemmtileg ferð. Guðbjört og Árni eru frábærir gestgjafar og pössuðu vel upp á að hafa ofan af fyrir mér allan tímann. Svo er líka fínt að skutlast þetta frá New York. Ég mæli með flugvellinum í Charlotte, NC ef fólk er á annað borð að ferðast (og millilenda) með US Airways. Stutt bið og ekkert "labba út og skipta um terminal" vesen.

IMG_0931.JPG

Annars segi ég bara takk kærlega fyrir mig, Guðbjört og Árni - ég á ábyggilega eftir að kíkja aftur einhvern daginn. Þið eruð líka að sjálfsögðu alltaf velkominn í stóra eplið.

IMG_0732.JPG

Guðbjört og froskaprinsinn hennar.

Þann 26 september, 2007 02:34, sagði Anonymous Nafnlaus...

vávává! þetta hefur verið alveg geeeggjað gaman :D og vel þess virði að bíða eftir ferðasögunni :) man eftir að hafa spilað svona lestaspil sem hét "ticket to ride" heima á íslandi en það fyndna er að það gerðist í bandaríkjunum - kannski var framleitt svoleiðis sem gerist í evrópu fyrir bandaríkjamarkað? :D

 
Þann 26 september, 2007 08:37, sagði Blogger Unknown...

Það var mjög gaman að fá þig í heimsókn, Ragnheiður. Það var ótrúlegt hvað við náðum að gera mikið á stuttum tíma.

Ein leiðrétting: Þið fóruð á Stake n Shake en ekki Checkers. Á Stake n Shake fást bestu mjólkuhristingarnir, mmmmm!

 
Þann 26 september, 2007 09:15, sagði Blogger Ragna...

Takk Árni, ég ætla að leiðrétta það. Fannst þetta líka hljóma eitthvað skringilega ;)

 
Þann 26 september, 2007 16:17, sagði Blogger Unknown...

Gaman að lesa ferðasöguna. Þetta hefur verið skemmtilegt og nóg að gera.

 
Þann 26 september, 2007 17:59, sagði Blogger Unknown...

Takk fyrir komuna! Já, þetta var fjör hjá okkur og skemmtileg færsla. Fáum að linka á söguna hjá okkur;) En við erum samt búin að kaupa myndavél núna;)

 
Þann 26 september, 2007 18:10, sagði Blogger Unknown...

ahahahha ég var líka alveg búin að gleyma gaurnum á IHOP! OMG!!! Já, þetta var frekar sterkt naut, kannski ég hætti að vera svona gráðug í framtíðinni og fái mér minni bita.....en í alvöru hvað er samt málið að setja chili sem lítur alveg út eins og nautakjöt í nautakjötsrétt!!! he he

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)