Helgarferðin
Skrapp aðeins til Delaware um helgina. Mætti á svæðið í fínu brúnu stígvélunum og við getum sagt að þau hafi verið brúkuð mikið um helgina. Ef ég notaði þau ekki þá þrammaði Kristín Edda um í þeim inni. Hún minnti dáldið á stígvélaða köttinn...
Byrjuðum að horfa á The Departed en ég hafði gefið Siggu myndina á DVD í afmælisgjöf. Ég skil ekki hvað systir mín var að kvarta yfir henni í ljósi sigurfarar myndarinnar á Óskarnum.
Á laugardeginum fórum við Sigga í Costco þar sem ég gerðist svo frækin að kaupa stóran kassa af brownies mixi. Hann reyndar varð stærri eftir að við vorum komnar heim. Sigga gerðist svo fræg að kaupa flottustu sjónvarpsfjarstýringu sem ég hef séð. Ég væri ekki hissa ef einn daginn fjarstýringin gæti lesið hugsanir manns. Annars látum við liggja á milli hluta hversu mikið var borgað fyrir gripinn... Á milli þess sem ég hamaðist við að líma límmiða þá fórum við Sigga og Kristín út að hjóla. Ég fattaði að ég hef ekki hjólað rosalega lengi. Kannski ég ætti að fara að gera meira af því. Um kvöldið hjálpaði ég Siggu aðeins að mæla í graskersbrauð. Reyndar varð ekki mikið úr hjálp minni þetta kvöldið því ég steinsofnaði í sófanum fyrir framan sjónvarpið.
Á sunnudeginum átti ég svo stefnumót með Kristínu Eddu. Eftir að hafa skutlað Siggu og Stefáni í bridgeklúbbinn fórum við í mollið. Við fórum í margar búðir og Kristín náði að plata frænku sína til að kaupa eitthvað smotterí. Síðan fórum við á vídeóleigu og fengum okkur DVD disk, ég hélt við værum að fara að horfa á Fríðu og Dýrið en við tókum víst disk með fjórum smásögum um Fríðu og Dýrið. Allt er nú til. Síðan fórum við heim, horfðum á diskinn okkar og gæddum okkur á poppi. Þetta var mjög gaman við klæddum dúkkurnar í kjóla og púsluðum smá á meðan við dáðumst að snjóstorminum sem var úti. Um kvöldið eftir að allir aðrir voru komnir heim var smáveisla með köku til að halda upp á afmælið Siggu. Loks horfði ég á alla Óskarsverðlaunaathöfnina sem var bara ágætisskemmtun.
Ég vaknaði svo kl. 8 á mánudeginum en ég átti miða með lest kl. 8.56. Í stuttu máli þá missti ég af lestinni - ég hef aldrei verið jafn pirruð og þegar ég kom hlaupandi upp rúllustigann og sá lestina við hliðina á mér byrja að renna af stað. Ég var sem sagt ekki mínútu of sein ég var 10 sekúndum of sein. Tók svo næstu lest og lenti nátla í sama vagni og prófessorinn minn sem kemur alltaf einu sinni í viku frá Washington DC. Hverjar eru líkurnar á því að hitta á hann (frekar margar lestir sem fara til New York á morgnanna).
Fékk svo að vita að sumir hafi verið frekar hissa að ég skyldi hafa verið farin til baka aftur. Kristín átti samt bestu viðbrögðin: "Er Ragna frænka farin? og hún tók stígvélin MÍN með sér!".
Hahaha. Góð. Stígvélin "mín".