Ragna í New York

31. ágúst 2005

Lítið merkilegt búið að gerast í dag. Búin að taka því rólega - reyndar búin að standa í nokkrum biðröðum líka en það var ekkert svakalegt.

Í gær fór ég á kynningu fyrir PHD stúdenta í flestum deildum Columbia. Hitti fullt af hressu fólki. Þrennt sem flestir segja við mann þegar þeir heyra að ég er frá Íslandi: "You're the first Icelandic person I've ever met", "Do you know Bjork" og "Do you know Sigurrass". Jámm svona er framburðurinn hérna.

Þurfti að skrifa nafnið mitt og deild á nafnspjald fyrir sjálfa mig og þar sem ég nennti ekki að skrifa Haraldsdóttir þá skrifaði ég bara Ragnheidur. Þegar konan sem var að dreifa þessum spjöldum sá þetta, spurði hún hvort ég væri frá Íslandi. Ég varð svo hissa að ég ætlaði ekki að geta andað. Hún sagði mér að hún hefði séð þetta á þremur síðustu stöfunum þ.e. dur. Það er víst eitthvað séríslenskt. Aldrei pælt í þessu áður.

Já annars í gær þá skráði ég mig í námskeið. Þurfti að fá undirskrift frá ákv. manni í deildinni eins og allir hinir doktorsnemarnir. Hann mætti sérstaklega uppeftir í gær til að skrifa undir en varð að taka krakkann sinn með. Svo þegar sumir ætluðu að fara þá var kominn miði þar sem á stóð: ekki banka, barnið sefur. Allir þurftu víst að hvísla. Þegar kom að mér þá fór ég með tveimur strákum. Þá var barnið (tveggja ára strákur) vaknað og var að byrja að kvarta og kveina (var eitthvað úrillur). Prófessorinn þurfti samt að segja eitthvað mikilvægt við okkur svo hann byrjaði að tala við okkur á barnamáli. Ef þið getið ímyndað ykkur fólk að tala við <1 árs gömul börn, að segja hluti eins og "þið megið bara taka annan af þessum tveimur kúrsum" . En já ætli þið hafið ekki þurft að vera þarna. Ég ætlaði varla að halda andliti.
Samt gaman að hafa svona skemmtilega karaktera.

Eftir að ég var búin að skrá mig í námskeiðin, fór ég í leiðangur til að sækja um kennitölu (SSN). Sú skrifstofa sem er næst Columbia er í Harlem - samt ekkert inni í miðju Harlem - en í Harlem engu að síður. Ég hafði planað að fara þetta ein en svo þegar tveir aðrir samnemendur mínir heyrðu að ég væri á leiðinni þangað þá slógust þau í hópinn, kínversk stelpa og serbneskur strákur. Ótrúlegt hvað umhverfið breytist bara við að labba 5 mín í burtu frá Columbia. Held við höfum verið eina ekkisvört-fólkið þarna á stórum radíus. Á leiðinni til baka þá var ég mjög fegin að við fórum þetta þrjú saman.

Annars hitti ég nokkra samnemendur mína í kvöldmat í gærkvöldi. Þar á meðal eru tveir tékkneskir strákar. Þeir koma úr sama skólanum í Prag, voru í sama námi í þrjú ár og komust svo báðir inn í tölfræðinámið í Columbia og búa núna saman í húsnæði frá skólanum. Verð að viðurkenna að ég var alveg rugluð á þeim fyrst - hafði nefnilega hitt annan þeirra á undan hinum og sá sagði mér að hann væri frá Tékklandi. Síðar hitti ég hinn og hann sagði mér að hann væri frá Tékklandi. Ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að ég væri bara rugluð og vissi ekkert í minn haus, hver væri hvaðan. En já til þess að hafa þetta á hreinu þá eru þeir tveir.

En jæja, allt er að komast í gang hérna á svæðinu. Þessi vika hefur ekki verið þverfótað fyrir "undergrad" nemum.
Núna síðustu daga (og næstu skv. veðurspá) hefur verið allt, alltof heitt. Ég er farin að hlakka til haustsins, bara vegna þess að þá ætti veðrið að vera orðið viðráðanlegra.

Annars var ég að klára að setja upp hillurnar mínar áðan. Núna er bara að bíða eftir að allt annað reddist fyrir herbergið.
Yfir og út.

Þann 01 september, 2005 15:09, sagði Anonymous Nafnlaus...

Múha :-D Er að reyna að ímynda mér prófessorinn babbla við ykkur - algjör snilld!

 
Viltu tjá þig?

Ef einhver mun nokkurn tí­ma lesa þetta þá má hinn sami láta mig vita. Verðlaunin eru kvöldmatur - ég splæsi. If someone will ever read this then you can let me know. You'll have to tell me were on the webpage this code is. The prize, dinner on me. Condition is that you have to know me ;)