Ekki dauð úr öllum æðum
Ég hefði getað svarið það að ég uppfærði eitthvað í mars, en greinilega ekki. Áður en ég gleymi þá vil ég benda á síðuna hennar Bjarnheiðar en hún er búin að skrifa eitthvað um Bandaríkjaferð sína frá því í mars svo þar má sjá einhverjar myndir.
Allt of margt búið að gerast síðan síðast svo ég muni eftir því öllu. Í stórum dráttum þá var ég hjá Siggu Sóley um páskana, kláraði önnina um miðjan maí og fór svo heim í 10 daga. Fjölskyldan (lesist pabbi og Sigga) er að byggja sumarbústað uppi í sveit og gengur það bara vel. Smiðirnir voru á fullu á meðan ég var heima og skiluðu víst bústaðnum í síðustu viku. Samt nóg eftir. Á meðan ég var heima var ég voða dugleg og bar eina umferð af viðarvörn á allan bústaðinn.
Eftir að ég kom til baka hef ég verið í sumartímum og svo bara unnið á skrifstofunni. Hef fengið einhverja gesti þ.a. á meðal Tönju hans Kára Ragnhildarbróður og vinkonu hennar. Þær hleyptu ungdóminum í mér af stað aftur við að reyna að komast inn á staði hér í borg, án skilríkja. (Eða sko ég kemst inn á staði en var alltaf spurð um skilríki með þeim í för.)
Einn sunnudaginn kíkti ég til South Orange í New Jersey þar sem Jared, einn mastersneminn var með útskriftarveislu heima hjá ömmu sinni. Ótrúlega skemmtilegt hús innréttað með ótrúlega flottum asískum munum, kínverskum og japönskum aðallega. Þau eru gyðingar og afinn hékk víst mikið með the Rat pack á sínum tíma og átti víst alveg ótrúlegustu hluti.
Svo er ég búin að kíkja of oft út að borða, finna nokkra flotta og nýja bari (vantar ekki úrvalið af þeim hér í borg).
Fór einn daginn á mockumentary með Rachel en systir hennar lék í myndinni. Það var bara ein sýning og allir í salnum tengdust að ég held myndinni á einn eða annan hátt. Þessi mynd hefur ekki verið í mikilli dreifingu en hefur alveg verið að taka inn verðlaun í keppnum sem hún hefur verið í. Þ.a. ef ykkur býðst einhvern tíman að sjá mynd sem heitir The Beverages þá endilega að kíkja á hana - mjög fyndin.
Valla eyddi afmælinu sínu með mér hér í borg í lok maí. Við túristuðumst aðeins um borgina, tókum þátt í happadrætti á að fá miða á Wicked (þ.e. vinna rétt til að kaupa miða ódýrt). Löbbuðum um Times Square þar sem mér fannst nakti kúrekinn koma einum of nálægt okkur :) Það var frábært veður þennan dag svo við fórum í Top of the Rocks enda alltaf gaman að koma þangað. Af öllum þeim skiptum sem ég hef farið upp á útsýnispallinn þar þá var þetta langbesta skyggnið (vel á minnst mæli algjörlega með Top of the Rocks í staðinn fyrir Empire State - flottara útsýni, engar raðir og þú getur tekið mynd af Empire State.)
Á laugardaginn er planið að fara í sautjánda júní grillveislu hjá Íslendingafélaginu í Princeton (ég held að fjölda meðlima sé hægt að telja á fingrum einnar handar). Ætla rétt að vona að það verði ekki rigning eins og er búið að vera nánast síðustu 2-3 vikurnar með kannski eins dags hléum. Það hefur nefnilega verið dæmigert íslenskt sumarveður hérna hingað til. Rignir mikið og þótt hitinn fari stundum yfir 20 gráðurnar þá hefur hann verið að haldast í svona 16-17 gráðum. Væri reyndar alveg frábært ef að sólin fylgdi með líka. Góði kosturinn er að maður hefur ekkert þurft á loftkælingunni að halda hingað til.
Annars er ég svo á leiðinni til LA seinni partinn í júlí. Er að fara á tveggja vikna heilamyndanámskeið í UCLA. Var einmitt að fatta að UCLA er bara rétt við hliðina á Beverly Hills og svo Hollywood. Ég flýg nokkrum dögum áður og ætla að leigja bíl og kíkja í heimsókn til Ásdísar til Santa Barbara. Þar sem það eru bara 4 dagar sem ég heimsæki hana þá ákvað ég að splæsa á blæjubíl því hvar annars staðar á maður að gera það en í Kaliforníu? Spurningin hvort maður keyri ekki í gegnum Beverly Hills og Hollywood áður en ég skila bílnum :)
Snilld!
Góða skemmtun í LA...
Það er líka búið að rigna mikið hér, meira samt endalaus þrumuveður frekar en stanslaus rigning.
Vá hvað þú ert dugleg að bera á allan sumarbústaðinn! Það verður ekkert smá frábært hjá þér að fara til LA! Góð færsla, og gaman að þú ert byrjuð að blogga aftur.
Gaman að sjá nýja færslu. :) Það verður örugglega algjört æði að koma á vesturströndina.
Kveðja; Kristín Ásta.
Þvílíkt góð hugmynd! Hlakka til að sjá myndir af ykkur og bílnum :)