Úti að aka
Í sambandi við færsluna hérna að neðan, þá er ég ekki viss um að þið viljið vita dagsetninguna sem er stimpluð ofan á kassann. Annars var Valla sammála mér að hún skipti engu máli þegar með hefði svona einstakt tækifæri til að fá bláan ópal í síðasta skipti ;)
Annars hef ég verið mjög upptekin síðustu vikuna, svo upptekin að ég hef ekki skráð mig inn á msn lengi! Vikan eftir helgina sem grísagrillið var mjög skrítin. Ég fór ekki fyrr en á mánudagskvöldi heim til NYC eftir að hafa passað Kristínu sem átti frí í skólanum. Við reyndar vorum svo duglegar að við fórum í IKEA og Kristín Edda fór í boltaland á meðan ég skoðaði. Að sjálfsögðu tókst mér að kaupa ýmislegt sniðugt til að fegra umhverfið í íbúðinni hjá mér. Næst er að koma því upp ;)
Harold skutlaði mér uppeftir um kvöldið og var ég komin heim um tíu leytið eftir stutt stopp í West Chester sem er mjög fínt hverfi í NY fylki rétt norður af NYC.
Á fimmtudeginum byrjaði ég svo að fara í vínsmökkun á þýskum vínum hér hjá félagi framhaldsnema hjá Columbia. Þýsk gæðavín þar á ferð en ég þurfti svo að fara fyrr þar sem ég þurfti að ná í lest kl. 21 til Wilmington. Ég gerði nefnilega samning við Harold um að ég kæmi og passaði Stefán á föstudeginum og fengi svo bíl í láni yfir helgina. Það gekk eftir og á föstudeginum var ég fyrirmyndar húsmóðir. Ég bakaði tvær eplasósukökur, bakaði tvo hleifa af ostabrauði, setti tvisvar í uppþvottavélina og endaði með að baka hrekkjavökuköku með krökkunum. Ég meira að segja fór með Kristínu í skólann og sótti hana. Stefán var að sjálfsögðu mjög þægur á meðan.
Um kvöldið keyrði ég svo á fína bílnum hans Harold til stórborgarinnar þar sem ég var á leið í ferðalag með krökkum úr skólanum hjá mér morguninn eftir.
Við fórum í svokallað camp í upstate New York fylki, eða stað þar sem eru skálar til að gista í og svo er hægt að stunda alls konar íþróttir, fara í gönguferðir, ropes kúrs (hópeflisdæmi) allt gert til að þjappa hópum saman. Þetta var mjög skemmtileg ferð - við vorum 6 í bílnum hjá mér og 5 í öðrum bíl. Trudy (GPS) var að sjálfsögðu með í för og auðveldaði lífið mjög. Í stuttu máli þá er minnistæðast, gönguferð í Sams Point, varðeldur, pictionary (prófið að spila með alþjóðlegu fólki), hópefliskúrsinn, draugasíminn. Reyndar var draugasíminn ekkert svo merkilegur. Harold er með handfrjálsan búnað innbyggðan í bílnum sem tengist við símann manns með bluetooth. Pabbi hringdi svo eitt sinn sem við vorum í bílnum og þegar liðið fattaði það þá vildi það endilega prófa aftur eftir að ég talaði við pabba. Þá kom í ljós að þegar maður hringir á sama stað og maður er þá heyrist nátla bergmál og þótt það hinn besti leikur að reyna að hræða fólkið í hinum bílnum með því að fá það til að setjast inn og heyra bergmálið...
Annars komum við til baka á sunnudeginum eftir skemmtilega dvöl, og eftir rúmlega hálftíma stopp lagði ég af stað til að skila bílnum. Stoppaði og borðaði kvöldmat með Völlu og Geir (getið þið trúað því að Geir vildi ekki bláan ópal!). Keyrði síðan sem leið liggur til Wilmington, reyndar með smá detour í skuggalegri pörtum Philadelphiu þar sem Trudy var ekki alveg nógu vel uppfærð. Síðan fór ég bara sem leið liggur til NYC aftur um morguninn. Lenti við hliðina á fyrrum hermanni úr seinni heimsstyrjöldinni. Held hann hafi verið svona um 90 ára gamall og hafði gaman af því að spjalla. Hann var að koma úr heimsókn hjá dóttursyni sínum, 40 ára gömlum og ætlaði dóttir hans að sækja hann á lestarstöðina (móðri 40 ára mannsins...) Vildi endilega að ég myndi e-n tíma heimsækja Notre Dam háskólann því hann hafi verið að koma þaðan og það hafi verið svo frábær kampus að ég yrði að kíkja á hann. Sjálfur býr maðurinn í New Haven þar sem Yale er...
Í þessari viku er nóg að gera, núna er ég að undirbúa mig fyrir kennslu á morgun. Þarf nefnilega að kenna einn tíma fyrir prófessorinn sem ég aðstoða (Tölfræði I kúrs/ Grundvöllur tölfræðinnar). Gleymdi annars símanum heima í dag og mér líður eins og ég hafi gleymt öðrum handleggnum. Ætla samt að reyna að lifa án hans í dag ;)