Jólaöngþveiti
Kláraði prófin á föstudagsnóttina. Þvílíkur léttir.
Stebbi kom í heimsókn á föstudaginn og var ég að senda hann rétt í þessu út á flugvöll. Ég sinnti honum að sjálfsögðu ekki baun á föstudaginn en á laugardaginn fórum við niður í bæ og hittum Völlu og Geir. Fórum í Macys og H&M ásamt því að labba aðeins um. Eftir að Valla og Geir voru farin fórum við að Rockafeller Center og sáum skautasvellið og jólatréð. Það var mjög flott ljósasýning á Sacks þarna rétt hjá með tónlist og öllu. Við enduðum kvöldið á að fara í partí hjá samnemendum mínum. Á leiðinni þangað sáum við svona "Christmas Carollers". Mér hefði aldrei dottið í hug að sjá svoleiðis hér. Á laugardeginum fórum við niður í SoHo, Chinatown og Little Italy. Hefðum getað eytt miklu meiri tíma þarna enda alveg ótrúlega mikið af æðislegum búðum í SoHo. Í Chinatown var alveg fullt af ágengum Kínverjum að reyna að selja manni "Rolex" og "Pravda", ég held það hafi verið fleiri "veiðimenn" úti á götunni heldur en afgreiðslumenn inni í búðunum. Við löbbuðum svo í gegnum Little Italy, fengum okkur að borða og enduðum á Times Square til að horfa á Brokeback Mountain. Talandi um Brokeback Mountain. Þetta var önnur tilraun mín til að fara að sjá hana, var uppselt á þriðjudaginn var þegar við Albína reyndum. Stebbi sagði mér að þegar hann fór að sjá King Kong á föstudaginn þá var einnig uppselt á Brokeback Mountain. Síðan er skv. mbl.is Brokeback Mountain bara númer 8 á lista yfir aðsóknamestu myndir í BNA þrátt fyrir að vera eina myndin þar sem er uppselt á allar sýningar. Æi, kannski eru bara færri sýningar - held samt ekki. Í dag skruppum við Stebbi síðan niður á 5th Avenue og kíktum inn í F.A.O. Schwarz, Tiffany's og Trump Tower. Maður fékk smá sjokk að sjá alla þessa dýru skartgripi í Tiffany's og gulliskreyttu innréttingarnar í Trump Tower. Annars eru gluggaskreytingarnar á 5th Avenue þess virði að fara sérferð þangað niður eftir.Það skrítnasta í dag voru samt allar löggurnar við Central Park. Við löbbuðum s.s. þvert framhjá Central Park, frá Broadway að 5th Avenue og voru nánast löggubílar alla leiðina. Á einum stað var síðan röð af svona 20 löggum sem voru búnir að stilla sér upp og einhver svona Chief að tala við þá. Alveg stórmerkilegt og ég held að allir hafi verið að velta því fyrir sér afhverju í ósköpunum allar þessar löggur væru þarna. Væri gaman að komast að því.
Það sem er á döfinni hjá mér er annars bara að reyna að klára að versla jólagjafirnar og svo pakka niður þar sem að Sigga ætlar að reyna að gera tilraun til þess að keyra til borgarinnar á miðvikudaginn. Það gæti orðið dálítið erfitt þar sem starfsmenn lestakerfisins og strætóanna hafa hótað því að fara í verkfall á morgun og ef til þess kemur þá verða að vera amk. 4 í bíl til að mega keyra inn á Manhattan. Held kannski að í og með þess vegna sé allt búið að vera brjálað niðri í bæ núna síðustu daga þar sem fólk vill reyna að klára jólainnkaupin áður en til verkfalls kemur. Annars er víst brjálæðislega dýrt fyrir starfsmennina að fara í verkfall hérna. Það er nefnilega ólöglegt í New York fylki að fara í verkfall ef þú ert opinber starfsmaður og það má sekta þig um tvöföld laun á meðan þú ert í verkfallinu. Hugsa sér ef kennarar mættu ekki fara í verkfall heima!
Annars segi ég bara gleðileg jól og sjáumst hress heima í jólafríinu!!!